Stjórn Karlakórsins fékk þá hugmynd í vetur að efna til vorferðar. Fulltrúi annars
bassa í stjórn, Loftur Magnússon, bauðst til að skipuleggja ferð fyrir kórinn og maka á
slóðir forfeðra sinna á Vesturlandi og með Miðhraun á sunnanverðu Snæfellsnesi sem
bækistöð fyrir hópinn.
Ekki leit þetta vel út daginn fyrir brottfarardag, tuttugu sentimetra jafnfallinn snjór var
yfir öllu og líklegra að úr yrði skíðaferð en vorferð. Snjóinn tók þó fljótlega upp og
allt leit betur út.
Haldið að Tindum.
Rútan lagði af stað frá Flúðum og týndi upp ferðalangana á leiðinni á Selfoss. Fyrst
var þó farið að Tindum á Kjalarnesi þar sem Atli stjórnandi og frú búa ásamt
stórfjölskyldu. Jómundur barnabarn hans, sem er yngstur kórfélaga beið þar einnig
spenntur. Þar svignuðu borð undan veitingum sem okkur stóð til boða. Okkur þótti
verra að Halldóra kona Atla ætlaði ekki í ferðina því hún hugðist sinna sauðburðinum
enda hjúkrunarkona en Atli ekki. Atli fór með okkur í fjárhúsið og sýndi okkur
nokkrar ær sem voru að burði komnar. Hann ljómaði eins og stoltur faðir þegar hann
talaði um skjáturnar. Hann var með myndavél í fjárhúsinu og gat því fylgst með í
símanum ef hann vildi. Við vildum endilega fá Halldóru með og vorum tilbúnir að
skilja Friðgeir eftir í staðinn. Hann væri alvanur sauðburði og þyrfti ekkert nema
samloku og bjór í þessa þrjá daga. Atla var þó ekki haggað.
Af ættfræði.
Þá var haldið af stað. Allflestir kórfélagar eru með athyglisbrest á lokastigi og var því
ferðin algjör óvissuferð. Loftur hélt því þó statt og stöðugt fram að hann hefði sent
okkur ferðaplanið í pósti og marg ítrekað það. Hann tók nú til við að leiðsegja okkur,
enda sprenglærður sem slíkur. Sagði hann okkur m.a. frá langafa sínum sem var af
þessum slóðum en hafði farið til Ameríku á vesturfaraárunum en eitthvað ruglast og
óvart komið til baka. Sigmundur í Syðra-Langholti gat einnig frætt okkur um að hann
væri ættaður af Mýrunum. Bær forfeðra hans hét víst Litli-kálfa-lækur og var mikið
hörmungarkot og útnári. Miklar vangaveltur urðu um þetta bæjarnafn og Hrunamenn
gátu illa sætt sig við að slíkt eðalmenni eins og Simmi er væri kendur við lítin kálf og
lækjarsprænu. Bærinn var umsvifalaust endurskýrður Stóra-bola-fljót og Sigmundur er
ættaður þaðan hér eftir.
Miðhraun.
Áður en við vissum vorum við staddir að Miðhrauni og ferðalöngum var úthlutað
svefnpláss. Gist er þarna í mörgum misstórum húsum og fengu þeir sem voru stakir
eða konulausir að gista saman í svokölluðum Hrútakofa. Húsið hét reyndar eitthvað
annað en gekk undir þessu nafni meðan við vorum þar. Var svo farið í kvöldmat í boði
kórsins og skemmt sér vel fram á nótt. Engar frekari lýsingar eru til um þetta kvöld.
Þeir sem gistu í Hrútakofanum vöknuðu stundvíslega klukkan 7.17 að staðartíma þar
sem Sigmundur gat ómögulega fundið símann sinn strax. Síminn hringdi látlaust þar
til allir í húsinu voru vaknaðir. Þegar Simmi fann símann að lokum kom í ljós að
félagi Agnar þurfti að ræða við hann um brýnt málefni svona í morgunsárið.
Sigmundur tók erindinu ljúfmannlega.
Axlar-Björn og Lóndrangar.
Eftir morgunmat var haldið af stað í átt að jöklinum tignarlega sem skartaði sínu
fegursta í veðurblíðunni. Dóttir Lofts, Þórhildur Sif tók að sér að leiðsegja þennan dag
enda lærður leiðsögumaður og öllum hnútum kunnug á nesinu eftir að hafa unnið á
Miðhrauni og búið í Stykkishólmi í einhvern tíma. Hún stóð sig með prýði og var fljót
að kveða þá í kútinn sem leyfðu sér frammíköll. Meðal annars sagði hún frá
raðmorðingjanum Axlar- Birni sem var afkastamesti morðingi Íslandssögunnar.
Kórfélagar sátu þögulir undir frásögninni og fegnir að vera ekki á ferðinni um nesið
meðan hann var og hét.
Fyrsta stoppið var svo að Lóndröngum. Var gengið frá Þúfubjargi, framhjá
Lóndröngum að Malarrifi. Myndirnar tala sínu máli um mikilfengleik þessa
náttúrufyrirbæris.
Viti er á Malarrifi og gestastofa með sýningu um náttúruna í þjóðgarðinum. Þar var
upplagt að taka lagið sem var að sjálfsögðu gert við dúndrandi lófaklapp starfsmanns
gestastofunnar.
Þórdísarstaðir kóngsins.
Næst var haldið að Þórdísarstöðum. Þórdísarstaðir eru í eigu eins af félögum okkar í
kórnum, Bjarna Jónassonar. Þar rekur hann ásamt tveimur félögum sínum
ferðaþjónustu í 10 húsum og er uppbyggingu þar engan vegin lokið. Bjarni og
Sæmundur félagi hans buðu uppá dýrindis súpu og allskyns göfuga drykki. Hafi þeir
þökk fyrir móttökurnar.
Menn voru svolítið að velta fyrir sér viðurnefni Bjarna þ.e. Bjarni kóngur, og voru
uppi ýmsar getgátur en síðan kom í ljós að skýringin var einföld; hann var frá
Kóngsbakka sem er ekki allfjarri Þórdísarstöðum.
Veisla að Bjarnarhöfn.
Áfram var haldið og næst var stoppað á Bjarnarhöfn, þeim fornfræga stað. Að þessu
sinni var Hákarlasafnið ekki skoðað en þess í stað fengum við að skoða kirkjuna sem
alla jafna er ekki opin almenningi. Bændurnir á Bjarnarhöfn þau Birkir Hildibrandsson
og Herborg Sigurðardóttir tóku á móti hópnum og sögðu frá kirkjunni. Kirkjan var
vígð árið 1857 og þjónar aðeins sem heimiliskirkja á staðnum. Í henni eru margir
merkilegir gripir m.a. prédikunarstóllin sem er frá 1695 og kaleikur kirkjunnar er
ævagamall og líklega frá 1280 því hans er getið í máldaga frá þeim tíma. Altaristaflan
er hið mesta listaverk og var hún gefin kirkjunni á 17. öld vegna áheits þegar
Hollendingar stunduðu fiskveiðar af kappi við Íslandsstrendur og einhverjir lentu í
sjávarháska á þessum slóðum. Altaristaflan var máluð á tímum Rembrandts og hélt
Hildibrandur heitinn bóndi á Bjarnarhöfn því ákaft fram að Rembrandt hefði málað
hana. Félagi Agnar hafði sig nokkuð í frammi í kirkjunni og var uppnuminn af þessu
ríkidæmi og spurði ítrekað hvort að Ásgeir Seðlabankastjóri vissi af þessu en hann er
eins og sumir vita ættaður frá Bjarnarhöfn. Þessi vísa varð þá til hjá félaga Gylfa;
Tilefni að taka ofan hatt
er tilverunni kórinn fagnar.
Í minni kirkjum mjög er tónað glatt
er messar séra Agnar.
Þegar kirkjuskoðuninni lauk var okkur boðið í fjárhúsið. Þau hjón eru með yfir 400
fjár svo að mikill annatími er framundan þar. Í fjárhúsinu biðu okkar kræsingar á borð
við rúgbrauð með reyktum rauðmaga og gröfnu sauðaketi að ógleymdum hákarlinum
fræga frá Bjarnarhöfn. Þessu öllu var svo hægt að skola niður með einstaklega
kröftugum og ljúffengum amerískum drykk sem heitir “Moonshine”. Var þessu gerð
góð skil. Svo góð skil að 5 hafernir sem halda til í Bjarnarhafnarfjalli fyrir ofan bæinn
hnituðu marga hringi fyrir ofan okkur vongóðir um að einhverjir okkar myndu villast
og enda örendir afsíðis. Eftir þessar einstöku móttökur kvöddum við þau hjón með
söng og héldum okkar leið.
Allt um saltfisk.
Þá var ekið til Stykkishólms og komið við í fiskvinnslunni Þórsnesi ehf. þar sem
Sigfús nokkur ræður ríkjum. Sigfús reyndist vera bróðir Lofts. Hann leiddi okkur í
allan sannleikan um saltfisverkun á Íslandi og veitti vel af saltfiskssmakki og bjór til
að skola niður með. Við sungum svo fyrir hann að sjálfsögðu. Höfðu menn á orði að
að tæplega gæti hann verið albróðir Lofts því hann væri svo hógvær og
“tilbageholdende” svo maður sletti nú ensku. Gylfi komst að sömu niðurstöðu hvað
varðar Þórhildi Sif.
Þræddi Nesið Þorhildur Sif,
og þuldi margar sögur
um Bárð og Hellissand, Bjarnarhöfn, Rif,
bæði glettin og fögur.
Eftir ferðina fullvel skil
að fjölskyldugenunum stundum týnum:
Þórhildur Loftsdóttir, „lykke til“,
þú líkist ekkert föður þínum.
Af hvalkjöti og dýfingum.
Þá var komið að því að fá sér kvöldmat. Búið var að panta borð fyrir kórinn á
Narfeyrarstofu og þangað fórum við svo. Forrétturinn var Langreyður í
grænmetisbeði. Ekki þarf að spyrja að matvendninni hjá sumum. Vildu þeir frekar
Steypireyði eða Náhval heldur en Langreyði og hlustuðu ekki á rök
þjónustustúlkunnar að það væri bannað að veiða Steypireyði. Voru þeir þó tilbúnir að
sættast á Hnúfubak. Stúlkan gaf sig ekki og lét sig hverfa en allt var borðað að
endingu. Allir voru saddir og sælir þegar þeir stigu upp í rútuna og héldu heim að
Miðhrauni.
Þegar heim var komið fóru sumir í setustofurnar og fengu sér toddý en aðrir settu
stefnuna á stóra heita pottinn þar. Bjarni Hjalta þar á meðal. Hann var svo upplagður
eftir Langreyðarátið að hann fann hjá sér hvöt til að stinga sér af bakkanum
heljarstökk afturábak í tvöfaldri skrúfu. Þetta endaði ekki vel hjá Bjarna því
tröppurnar ofan í pottinn voru á þeim stað sem Bjarni hugðist lenda. Hann er nú búinn
að ná sér að fullu, hættur að nota göngugrindina og aftur tekinn til við að æfa dýfingar
í Hrunalaug.
Atli stjórnandinn okkar var svolítið utanvið sig stundum í ferðinni, mikið í símanum
eins og krakkarnir, en svo lifnaði heldur yfir honum og hann sýndi okkur eins og
stoltur faðir nýjustu lömbin í símanum sem Halldóra hafði tekið á móti; krögubíldóttri
gimbur og huppukápóttum hrút.
Góð og vel heppnuð ferð þökk sé félaga Lofti Magnússyni og stjórn KKH.
Eða eins og Gylfi orðaði það;
Rétt er nú að þakka fyrir það
að þakkir hafa verið færðar
körlum sem að komist hafa’ á blað
og konum þeim sem skulu mærðar.
ÞJ