Söngárið 2002-2003

Sveitarstjórn Hrunamannahrepps hélt Lofti Þorsteinssyni bónda og fyrrum oddvita í Haukholtum kveðjuhóf í Félagsheimilinu á Flúðum föstudagskvöldið 11. október. Loftur var að láta af störfum sem oddviti og vottaði Karlakór Hreppamanna honum þann heiður að taka nokkur lög í hófinu.

Samkór Selfoss hélt ungverskt menningarkvöld 14. febrúar á Borg í Grímsnesi. Þetta kom til eftir að kórinn hafði farið til Ungverjalands með Edit árið áður en hún stjórnaði einnig Samkórnum. Karlakór Hreppamanna fékk að taka þátt í menningarkvöldinu og tók þar nokkur lög.

2003Afmælismánuður kórsins var viðburðaríkur eins og oft áður. Þriðjudaginn 15. apríl héldu kórfélagar til Reykjavíkur til að syngja á tónleikum með Karlakórnum Fóstbræðrum. Þessi ferð var góður undanfari þar sem árlegir vortónleikar kórsins vor daginn eftir eða þann 16. apríl. Kórinn flutti dagskrá sína á Vortónleikunum án gestakórs þar sem píanóleikari kórsins Miklós Dalmay lék einleikslög á milli söngatriða. Þann 24. þessa mánaðar söng kórinn á tónleikum í Árnesi ásamt Grundartangakórnum. Dagskráin var hefðbundin með söngdagskrá kóranna og samsöng undir lok tónleikanna. Að þessu sinni sungu kórarnir saman lögin Hrossarétt og Fjallið Skjalbreiður.

Vorferð kórsins var að Reykholti í Borgarfirði þann 26 apríl. Þar söng kórinn með Freyjukórnum og einsöngvaranum Margréti Guðjónsdóttur í Reykholtskirkju. Fjórum dögum síðar var haldin sönghátíð Hrunamanna í Félagsheimilinu á Flúðum. Kórarnir fjórir sem höfðu sungið á þessari samkomu seinustu ár fengu rausnarlega viðbót þetta árið þar sem Sigrún Hjálmtýsdóttir steig á svið með kórunum. Einnig söng Diddú fimm einsönglög undir píanóleik Miklós Dalmay.

Fáni kórsins var saumaður og afhentur á veitingarstaðnum Kletti við Reykholt á aðalfundi kórsins og heimasíða Karlakórs Hreppamanna, http://www.kkhreppamanna.com/ var opnuð á þessu starfsári. Síðan var hönnuð og uppsett af Elínu Jónu Traustadóttur húsmóðir frá Tungufelli.

Á tímabilinu 15. til 30. apríl söng kórinn á fimm tónleikum auk þess sem kórinn fór í sína árlegu vorferð. Þetta gefur góða mynd af þeim tíma sem kórfélagar verja í kórstarfið og annað þarf því oft að víkja á meðan. Áhuginn drífur Karlakór Hreppamanna áfram sem kostar oft mikla vinnu og tíma en skilar þeim jafnt árangri sem og eftirtekt á landsvísu.