Söngárið 1999-2000

Aldarmótaveturinn fór skemmtilega ef stað með söng á Söngkvöldi í Aratungu með Karlakór Kjalnesinga þann 27. nóvember. Kórinn tók að sér gestgjafahlutverkið að þessu sinni en árið áður höfðu Kjalnesingar tekið á móti Karlakór Hreppamanna á sínum heimaslóðum. Á Konukvöldi Sambands sunnlenskra kvenna, þann 14. desember, var markmiðið að skemmta kvenþjóðinni og voru þar tekin nokkur lög við góðar undirtektir.

Vígsluhátíð mikil var haldin í hestamiðstöð Íshesta í marsmánuði. Karlakórinn var fengin til að taka þar nokkur lög fyrir gesti hátíðarinnar sem voru m.a. forseti Íslands, ráðherrar ofl. Hreinn Þorkelsson setti saman tækifæristexta við eitt kórlag sem var tileinkað Einari Bollasyni og vakti það mikla lukku hjá honum og öðrum sem á hlýddu. 2000 Í sama mánuði var einnig komið við og sungið á Skemmtikvöldi Kvenfélags Hrunamannahrepps.

Árlegir Vortónleikar Karlakórs Hreppamanna voru haldnir í Félagheimilinu á Flúðum laugardaginn 1. apríl. Að þessu sinni voru einsöngvararnir Loftur Erlingsson og Helga Kolbeinsdóttir gestir samkomunnar. Þau sungu bæði ein og sér, saman og með kórnum.

Kórinn söng á kóramóti í félagsheimilinu á Blönduósi þann 15. apríl árið 2000. Tónleikarnir eru árlegur viðburður með fjórum kórum og heita tónleikarnir Söngur um sumarmál. Tveir kóranna halda tónleikana og eru úr heimabyggð, Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps og Samkórinn Björk, en hinn gestakórinn var Karlakór Dalvíkur. Haukur Ágústsson lagði mat sitt á frammistöðu kóranna í grein er birtist í Sunnlenska Fréttablaðinu stuttu síðar. Þar taldi hann Karlakór Hreppamanna vera vel agaðan kór og greinilegt að kórstjórinn væri í góðu sambandi við kórinn. Flutninginn taldi hann vera af öryggi, ákveðni og styrk sem skilaði sér almennt vel til áheyrenda.[1]

Á Vorsöng í Selfosskirkju 7. maí sungu Samkór Selfoss, Söngfélag Þorlákshafnar, Samkór Rangæinga og Karlakór Hreppamanna. Þetta var seinasti söngur kórsins fyrir sumarfrí og viðeigandi að enda starfsveturinn á vorsöng í þessari fallegu kirkju. Um vorið voru söngmenn orðnir um 40 talsins úr 5 sveitarfélögum. Flestir kórfélaga komu úr Hrunamanna- og Gnúpverjahreppi auk þess sem Biskupstungur, Hraungerðishreppur og Villingaholtshreppur áttu þar sína fulltrúa.[2] Þennan vetur var því kórastarf í uppsveitum Árnessýslu með miklum blóma.


[1] Sunnlenska Fréttablaðið19. apríl 2000, bls. 14.

[2] Sunnlenska Fréttablaðið 24. mars 2000, bls. 14.