Stofnsaga kórsins

 

Stofnsaga

 

Karlakór Hreppamanna fagnar á þessu ári 2007 tíu ára starfsafmæli sínu. Það er í raun undir hverjum félagsskap komið hvernig starfið þróast og má tengja það beint til þeirra sem í honum taka þátt og skapa samstarfið. Það má á vissan hátt segja að stofnun Karlakórs Hreppamanna hafi verið hálfgert ævintýri og hafi samstarfið gengið framar björtustu vonum, svo að segja á hverju starfsári.

ungverjalandÞað var síðla á góu 1997 að Edit Molnár ámálgaði það við nokkra karla í kirkjukórnum, hvort grundvöllur væri fyrir því að stofna karlakór á Flúðum. Þeir tóku því ekki illa og ekki löngu síðar sátu þau yfir rauðvínsglasi í stofunni hjá Edit og lögðu á ráðin um stofnunina.

Að kvöldi 1. apríl sama ár var svo boðað til fundar/æfingar í Félagsheimili Hrunamanna á Flúðum og þar mættu um 25 karlar úr Hrunamanna- og Gnúpverjahreppum. Þótti það með ólíkindum góð mæting og lýsandi um áhuga á málinu, ekki síst vegna dagsetningarinnar. Höfðu símtöl gengið manna á milli fyrr um daginn til að ganga ur skugga um að ekki væri um frumlegt aprílgabb að ræða!

Á þessari fyrstu æfingu var ákveðið að Edit Molnár tæki að sér að stjórna kórnum og maður hennar Miklós Dalmay myndi annast píanóleik fyrir kórinn. Stefnan var tekin hátt og ákveðið að kórinn skyldi koma fram á Sönghátíð Hrunamanna, rúmum fjórum vikum síðar, í byrjun maí. Fyrsta stjórnin var skipuð þeim Eiríki Ágústssyni, Gunnari Eiríkssyni, Einari Loga Sigurgeirssyni og Þrándi Ingvarssyni. Ekki var um hefðbundna stjórn að ræða heldur var stjórn sett saman til að afgreiða málefni kórsins þetta vorið. Þegar litið er til baka var Eiríkur Ágústsson í forsvari fyrir þessa stjórn auk þess sem hann var einn af aðalhvatarmönnum félagsskaparins ásamt þeim Gunnari Eiríkssyni og Edit Molnár.

Framtíð kórsins var ekki ráðin á þessu vori 1997. Þeir sem tóku þátt í félagsskapnum voru áhugasamir um kórstarfið, en í raun vissi enginn hvaða stefna yrði tekin næsta haust. Í gamansömum tón hafði Edit gefið loforð fyrir því að hún starfaði áfram eftir sumarið ef þeir gætu sungið sæmilega á Sönghátíð Hrunamanna. Karlarnir efndu það loforð og gengið var í að hópa saman körlum á ný haustið eftir. Smölunin gekk vonum framar og voru margir nýir kórfélagar mættir, stútfullir af áhuga fyrir þessum nýja og nafnlausa kór

Gunnlaugur Magnússon bóndi í Miðfelli var fyrsti formaður kórsins sem var kosinn á fyrsta heila starfsárinu, frá hausti 1997 til vors 1998. Hann lagði góðan grunn af starfsemi kórsins sem byggt hefur verið ofan á æ síðan. Eftir fjögurra ára formensku tók Brynjar Sigurðsson bóndi á Heiði við af Gunnlaugi og gegnir því embætti enn á þessu tíunda afmælisári kórsins.

Á fyrsta heila starfsárinu var gengið í það verðuga verkefni að finna nafn á kórinn. Formaður kórsins auglýsti eftir tillögum kórfélaga um nöfn og út úr þeirri leit kom nafnið Karlakór Hreppamanna, sem bæði hefur vanist vel og lýsir uppruna kórstarfsins. Þetta sama ár var tekið stórt skerf í almennum skipulagsmálum í kórnum og komið á fót nefndum sem áttu að annast sérverkefni fyrir kórinn. Þessar nefndir voru sögunefnd, búninganefnd, pallanefnd, skemmti- og móttökunefnd auk þess sem kosnir voru raddstjórar fyrir hverja rödd. Nefndarskipan hefur haldist að nokkru leiti þessi tíu starfsár, þó síðar hafi bæst ritnefnd sem sér um söngskrár.

Æfingar voru ákveðnar á þriðjudagskvöldum og hefur sá siður haldist á starfstíð kórsins. Fastir liðir sköpuðust fljótlega í félagskapnum eins og æfingardagar, þar sem kórinn fer heilan laugardag í æfingarbúðir. Hefð hefur skapast fyrir því að notast við annan stað fyrir æfingabúðir en hinn hefðbundna æfingarstað Félagsheimilið á Flúðum. Aðrir fastir liðir einkenna söngstarfið eins og vortónleikar sem er uppskera ársins, vorferðir og nú á nýrri öld karlakvöld ofl. Samheldni er mikil til að láta kórstarfið ganga vel og hafa mætingar og þátttaka kórfélaga verið svo gott sem án forfalla þótt sumir keyri meira en 100 km. á æfingar. Félagskapurinn er mikils metinn af kórfélögum sjálfum og sameinast hópurinn hvenær sem er árs, ef þurfa þykir, eins og á stórafmælum kórfélaga, í hestaferðum og fl.

Karlakór Hreppamanna hefur á þessum tíu árum látið verkin tala og stendur nú klettfastur í karlakórsmenningu landsins. Á þessum árum hefur kórinn sungið fjórum sinnum fyrir forseta Íslands, sungið undir hljóðfæraleik Sinóníuhljómsveitar Íslands tvisvar auk þess sem samstarfskórar, einsöngvarar og hljóðfæraleikarar sem unnið hafa með kórnum eru fjölmargir. Fjöldi söngmanna hefur farið frá fyrstu 20 körlunum upp í hátt á sjöunda tug sem gerir kórinn með fjölmennustu kórum landsins. Fjöldi söngmanna sem starfað hafa með kórnum á þessum tíu árum er rétt um hundrað.

Fjölbreytni einkennir kórstarfið á þessum fyrstu tíu árum kórsins. Það hefur verið viðvarandi hjá kórnum að hafa sem flesta samstarfskóra og vera ávallt að gera nýja hluti með nýju fólki, þó svo að kunningsskapur hafa vissulega myndast með sumum samstarfskórum eða samstarfsfólki. Það gæti því verið við hæfi að spyrja sig hvað næstu tíu ár bera í skauti sér. Stórann þátt í velgengni kórsins ber að þakka þeim hjónum Edit Molnár og Miklós Dalmay sem hafa með sínum bakgrunni og reynslu náð að draga fram það besta í hverjum söngmanni sem starfað hefur með kórnum.[1]

 


[1] Viðtal: Eiríkur Ágústsson og Edit Molnár.