Söngárið 2006-2007

Á tíunda starfsári kórsins var fjölbreytnin í fyrirrúmi. Laugardaginn 4. nóvember héldu Árnesingakórinn í Reykjavík, Karlakór Hreppamanna og Vörðukórinn tónleika í Félagsheimilinu á Flúðum. Karlakvöld Karlakórs Hreppamanna var haldið stuttu síðar eða 17. nóvember af öðrum tenór. Þessi árlegi viðburður var að festast í sessi sem hefð innan kórsins og var þetta í þriðja skiptið sem karlakvöld var haldið. Kvöldið var afar karlmannlegt þar sem fjöldi karla komu saman og þáðu karlmannlegar veitingar. Á boðstólnum var saltað hrossakjöt og grófhökkuð hrossabjúgu í aðalrétt. Í forrétt var hrátt hrefnukjöt og viðeigandi vökvi með til sótthreinsunar. Skemmtikraftur kvöldsins var Björgvin Franz Gíslason sem lék á alls oddi. Hann stjórnaði fjöldasöng, efndi til sönghópakeppni, auk þess sem hann tók nokkrar af sínum víðfrægu eftirhermum.

2007Kórinn söng á Búnaðarþingi sem sett var sunnudaginn 4.mars í Súlnasal Hótel Sögu. Fyrst söng kórinn lagið Árnesþing á undan ávarpi formanns Búnaðarsambands Íslands og Landbúnaðarráðherra og svo fjögur lög á eftir ræðunum tveimur. Forseti Íslands var á staðnum og var þetta í fjórða skiptið sem kórinn söng í hans áheyrn.

Karlakórinn og stjórnandi kórsins Edit Molnár fengu veglega umfjöllun í þættinum Tónlist er lífið sem sýndur var 11. mars. Þar var skyggnst inn á heimili Edit og rætt við hana um tónlistina. Farið var inn á æfingu hjá kórnum og sungu þeir þrjú lög í þættinum. Gunnlaugur Magnússon og Eiríkur Ágústson voru einnig heimsóttir á heimili sín og þeir spurðir út í kórstarfið og félagskapinn. Þátturinn gaf góða mynd af kórstarfinu og þeim geysilega söngáhuga sem heldur Karlakór Hreppamanna gangandi.[1]

Í tilefni af því að á vormánuðum fyllti Karlakór Hreppamanna sitt tíunda starfsár var strax á haustdögum ákveðið að láta starfsárið taka mið af þessum tímamótum. Svo skemmtilega vildi til að einmitt um vorið, nánar tiltekið þann 13. mars voru hundrað ár liðin frá fæðingu Sigurðar Ágústssonar frá Birtingaholti. Sigurður var einn af frumkvöðlum í kórstarfi og karlakórsstarfi í Árnessýslu. Ekki er víst að öllum sé ljóst að þegar Karlakór Hreppamanna var stofnaður þá var kórnum valið nafn er kallast á við forna frægð Hreppakórsins sem Sigurður stofnaði á öðrum áratug síðustu aldar. Félagar í Karlakór Hreppamanna hafa frá upphafi komið víðar að úr Árnessýslu en aðeins úr hreppunum.

Því þótti það vel við hæfi að þetta starfsár Karlakórs Hreppamanna yrði helgað minningu Sigurðar Ágústssonar þar sem einn hápunktur þess yrði þátttaka og dyggilegur stuðningur við mikla tónleikahátíð á Flúðum 17. og 18 mars, helguðum minningu hans. Ennfremur var söngdagskrá vortónleika Karlakórs Hreppamanna, 28. apríl, samsett úr lögum Sigurðar. Síðast en ekki síst var unnið að upptökum á geisladiski með lögum Sigurðar og útsetningum.

Stefnt er að því að gefa út geisladisk í haust með þeim lögum sem safnað hefur verið saman og tekin upp. Síðast fóru upptökur fram í Hveragerði þar sem kórinn kom stuttu áður og æfði eina dagsstund sem lauk með kvöldverði á Hestakránni. Upptökumaður Karlakórsins er Sveinn Kjartansson sem tók upp sex lög á þessu ári.


[1] Ríkissjónvarpið 11. mars. Tónlist er lífið.