Söngárið 2000-2001

2001

Heldur fór kórstarfið seinna í gang þennan vetur en árið áður, eða þann 3. október. Æfingadagar voru að venju með reglulegu millibili á árinu og var meðal annars æft í Félagslundi, Brattholti og Aratungu. Fyrstu tónleikar á þessum söngvetri voru svo nefndir Nóvembertónleikar sem kórinn hélt ásamt Karlakór Rangæinga í Félagsheimilinu á Flúðum fimmtudaginn 23. nóvember. Tónleikarnir enduðu að vanda með samsöng kóranna og að þessu sinni voru það lögin Fjallið Skjaldbreiður og Þú álfu vorrar yngsta land.

Fyrsti sunnudagur aðventu, 3. desember, var haldinn hátíðlegur með aðventuhátíð Hrunaprestakalls. Þar komu fram fjórir kórar, Barnakór Flúðaskóla, Yngribarnakór Flúðaskóla, Kirkjukór Hrunaprestakalls og Karlakór Hreppamanna. Séra Eiríkur Jóhannsson sóknarprestur setti og stjórnaði hátíðarhöldunum. Hallfríður Ólafsdóttir og Miklós Dalmay spiluðu á þverflautu og píanó saman og með kórunum. Áætlað er að hátt í 130 manns hafi stigið á svið sem er nokkuð hátt hlutfall af um 700 manna sveitarfélagi.[1]

Karlakórinn brá undir sig betri fætinum og fór í tónleikaferð norður yfir heiðar í byrjun desember. Kórinn var gestakór á tónleikum sem Karlakórinn Lóuþrælar og sönghópurinn Sandlóur héldu þann 9. desember. Tónleikarnir fengu yfirskriftina Síðasta söngæfing fyrir jól og voru haldnir í Félagsheimilinu á Hvammstanga. Blönduð dagskrá var hjá kórunum þar sem jólalög, almenn kórlög og gamanmál settu svip sinn á tónleikana. Síðasta söngæfing fyrir jól var einnig yfirskrift notalegrar kvöldstundar sem Karlakór Hreppamanna átti með mökum sínum á seinustu þriðjudagsæfingu fyrir jólafrí í Félagsheimilinu á Flúðum. Þar var m.a. boðið upp á heimatilbúin skemmtiatriði af ýmsum toga og samsöngva valinna kórfélaga.

Þegar halla tók að vori fór dagskráin að þéttast hjá kórnum. Sunnudaginn 8. febrúar sungu Samkór Selfoss, Karlakór Hreppamanna og Söngfélag Þorlákshafnar saman í Þorlákskirkju. Gamlir Fóstbræður og Karlakór Hreppamanna stilltu saman strengi sína á tónleikum í Árnesi 24. febrúar þar sem Ólafur Kjartan Sigurðarson söng einsöng fyrir Gamla Fóstbræður.

Afmælismánuður kórsins var fullbókaður með mörgum krefjandi verkefnum. Laugardaginn 7. apríl hélt kórinn Vortónleika í Félagsheimilinu á Flúðum. Að þessu sinni var Vörðukórinn gestakór undir stjórn Stefáns Guðmundssonar. Að lokinni söngdagskrá var efnt til dansleiks sem stóð fram eftir nóttu, þar sem Skúli Einarsson og félagar léku fyrir dansi.[2] Tveimur dögum síðar sungu Karlakór Hreppamanna á vortónleikum Samkórs Selfoss. Tónleikarnir fóru fram í Selfosskirkju og var Edit Molnár þar á heimavelli þar sem hún stjórnaði báðum kórum og Miklós Dalmay lék á Píanó.

Starfsvetri kórsins lauk með Vortónleikum sem haldnir voru í Vík í Mýrdal laugardaginn 5. maí. Þar söng kórinn einn og óstuddur fulla dagskrá sem samanstóð af 20 lögum úr ýmsum áttum. Af þessum 20 lögum átti einn kórfélaganna, Hreinn Þorkelsson, átta texta. Þessi ferð var um leið skemmtiferð kórsins og gistu kórfélagar og makar í Vík og skemmtu sér vel.

 


[1] Morgunblaðið 8. desember 2000, bls. 20.

[2] Sunnlenska Fréttablaðið 5. apríl 2001, bls. 5.