Söngárið 2005-2006

Mikil tilhlökkun var fyrir þessum starfsvetri þar sem hann hófst með skemmtilegu ferðalagi til Búdapest frá 13.-17. október. Skemmtu kórfélagar og makar sér vel þar og blönduðu saman skemmtun, söng, fræðslu og menningu. Edit og Miklós voru fararstjórar þar sem þau voru á heimavelli hvað varðar stefnur og strauma í tónlistarmenningu og margt fleira. Ferðinni verður gerð betri skil í ferðasögu aftar í ritinu.

Landsmót karlakóra var haldið í Hafnarfirði 29. október. Að þessu sinni voru það Karlakórinn Þrestir sem voru gestgjafar og leystu þeir það verkefni vel. Kórarnir sem tóku þátt voru 19 og sungið var á þremur stöðum auk þess sem sungið var í Stórkór sem var sameiginlegur kór allar kóranna.[1] Í stórkórnum vor hátt í eitt þúsund söngmenn sem hófu upp raust sína undir hátíðlegum tónum frá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ólafur Ragnar Grímsson var viðstaddur og sleit samkomunni að lokinni söngdagskrá.[2] Brynjar Sigurðsson og Gunnlaugur Magnússon sátu fund hjá Sambandi sunnlenskra kóra eða Kötlu fyrir hönd Karlakórs Hreppamann þar sem ákveðið var að Karlakór Hreppamanna yrðu gestgjafar á landsmóti karlakóra árið 2010. Þessi ákvörðun var vissulega lyftistöng fyrir kórinn sem fékk um leið staðfesting á stöðu sinni sem alvöru karlakór sem kominn væri á kortið og einnig virkur á landsvísu.

2006Í nóvember mánuði stóð mikið til. Þá var verið að taka upp efni til flutnings á gamlárskvöld í áramótakveðju útvarpsstjóra og hafði hann ákveðið að hafa suðurland að þessu sinni í sviðsljósi. Upptakan var gerð í Hveragerðiskirkju, en henni stjórnaði sá kunni dagskrárgerðarmaður Andrés Indriðason. Aðeins var um að ræða eitt lag, hið kunna ættjarðarljóð Yfir voru ættarlandi. Karlakór Selfoss, Karlakór Rangæinga og Karlakór Hreppamanna tóku þátt í söngnum. Edit stjórnaði söngnum hjá þessari þyrpingu karla eins og henni er einni lagið. Ekki var allt búið þótt upptakan væri að baki því nú var öllum gert að leggjast á bæn og biðja fyrir góðu veðri því næsta mál á dagskrá var að fara upp á Þingvöll og láta þar allan þennan stóra hóp „mæma“ lagið undir klettunum við Öxarárfoss. Allir karlarnir áttu að vera í dökkum frökkum og taka niður gleraugun en einhver misbrestur varð þó á því sumstaðar. Veðrið var sannarlega fagurt þennan dag en nokkuð kalt og ekki laust við að sumum væri nokkuð farið að kólna eftir svo sem eins og tuttugu upptökur. Efnið var svo sýnt rétt eftir miðnætti á gamlársdag eins og til stóð.

Kórinn hélt hátíðlega tónleika í Skálholtskirkju að kvöldi 27. nóvember. Margrét Bóasdóttir var kynnir tónleikanna og Magnea Gunnarsdóttir flutti einsöngslög undir orgelleik Miklós Dalmay. Einnig tók hópur drengja úr Skólakór Flúðaskóla þátt í söngnum. Þar sem svo hittist á að tónleikadagurinn bar upp á fyrsta sunnudag í aðventu þá var ákveðið að láta dagskrána draga nokkurn dám af því. Sr. Eiríkur Jóhannsson sóknarprestur í Hruna og söngmaður 1. bassa Karlakórs Hreppamanna flutti hugvekju fyrir samkomugesti, auk þess sem lagavalið var að nokkru sniðið að þessum tíma ársins. Íbúum uppsveita var boðið til þessara tónleika, enda hvert sæti skipað í kirkjunni. Gerður var góður rómur að tónleikunum og mál manna að sjaldan hefði söngur Karlakórs Hreppamanna hljómað betur en einmitt í þeirri hljómahöll sem Skálholtsdómkirkja sannarlega er.

Karlakvöld fyrsta bassa var haldið í janúar vegna þess að mikið hafði verið að gera hjá kórnum fyrir áramót. Forréttur kvöldsins var heimaþurrkuð skreið, þurrsteikt hnísa og snafsar en í aðalrétt var baunasúpa með saltkjöti. Fyrsti bassi sá um skemmtiatriðin sem voru bæði söngur og leikur auk þess sem allur kórinn tók lagið.

Raddbandafélag Reykjavíkur hélt skemmtikvöld í tónlistarhúsinu Ými í mars þar sem meðal annars var ballett á dagskrá Raddbandafélagsins. Karlakór Hreppamanna var gestakór á þessum tónleikum ásamt Söngbræðrum úr Borgarfirði og Norðurljósum. Ballettatriði Raddbandafélagsins var sannarlega hápunktur kvöldsins þar sem Svanavatnið var dansað eins og þeim er einum lagið. Ekki er þó hægt að segja að þetta áhættuatriði hafi gengið slysalaust fyrir sig því einn dansarana þurfti að leita sér læknisaðstoðar eftir dansinn þar sem hann festist í baki.

Vortónleikar Karlakórs Hreppamanna voru haldnir afmælisdaginn 1. apríl og heimsótti Karlakórinn Stefnir heimamenn af því tilefni með söng sínum. Sá háttur var hafður á að hafa tvenna tónleika þann dag, aðra í Hveragerðiskirkju um daginn og hina í Félagsheimilinu á Flúðum um kvöldið. Stjórnandi Stefnis var Atli Guðlaugsson og píanóleikari Árni Heiðar Karlsson. Fyrir Karlakór Hreppamanna voru hjónin Edit og Miklós í sínum hlutverkum í broddi fylkingar.

Vorferð kórsins þetta árið var norður í land, á Blönduós. Þar tók kórinn þátt í árlegri sönghátíð Húnvetninga sem kallast Söngur um sumarmál og var haldin var 22. apríl. Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps og Samkórinn Björk halda þessa tónleika ár hvert og sá háttur er á að hver kór býður til sín einum gestakór. Karlakór Hreppamanna var gestakór Karlakórs Bólstaðarhlíðarhrepps og Rökkurkórinn úr Sagafirði var gestakór Samkórsins. Kórarnir sungu saman í tvennu lagi eða hver með sínum gestum. Tónleikarnir gengu vel og gistu félagar í Karlakór Hreppamanna á Hótel Blönduósi í gistiheimili Glaðheima.

Veturinn var sannarlega fjölbreyttur hjá kórnum og víða komið við um landið vítt og breytt. Samstarf með öðru tónlistarfólki og kórum var mikið. Var það í samræmi við upphafleg markmið kórsins og hefur skilað sér í gagnvirku tengslaneti milli söngfólks um land allt.


[1] TónleikaskráSöngmót SÍK 2005.

[2] Mbl.is. Tónlist. 31. október 2005.