Söngárið 1998-1999

Að loknum sumarfríum hófst starfsárið með æfingu þriðjudagskvöldið 22. september. Búningur Karlakórs Hreppamanna var saumaður þennan vetur. Ákveðið var að hafa hann svipaðan og íslenska þjóðbúninginn að undanskildum jakkanum.

1999Laugardaginn 14. nóvember var blásið til tónleika í Félagsheimilinu í Árnesi ásamt Karlakórnum Söngbræðrum úr Borgarfirði. Í jólamánuðinum var farið í heimsókn til Karlakórs Kjalnesinga og Mosfellskórsins og sungið á tónleikum með þeim í Fólkvangi 4. desember.

Á nýju ári var haldinn æfingardagur á Sólheimum í Grímsnesi, 16. janúar. Sungið var fyrir heimamann að loknum æfingardegi í þakklætisskyni fyrir aðstöðuna. Lófaklappið var mikið og auðséð að þakklæti heimamanna var ekki minna en kórsins. Stefnan var tekin til Hafnarfjarðar á tónleika sem Karlakórinn Þrestir hélt þann 13. febrúar. Þessir tónleikar fengu yfirskriftina „…Sá elsti og sá yngsti“ þar sem vísað var til starfsaldurs kóranna tveggja. Eftir tónleikana var kórfélögum boðið til rausnarlegra veitinga með öllu tilheyrandi og víst er að enginn fór svangur frá því veisluborði.

Þegar leið að vori fór heldur að herðast á dagskránni hjá Karlakór Hreppamanna. Tónleikar voru haldnir í Laugalandi föstudaginn 12. mars. Þar komu fram Skálholtskórinn, Karlakór Rangæinga, Samkór Rangæinga og Karlakór Hreppamanna. Undir lok tónleikanna voru settir saman tveir kórar úr þessum fjórum sem tóku tvö lög á hver. Tveimur dögum síðar, 14. mars, söng Karlakór Hreppamanna á vígsluhátíð í Félagsheimili Hrunamanna á Flúðum. Þar var verið að vígja nýjan flygil. Ásamt kórnum komu fram Barnakór Flúðaskóla, Flúðakórinn, Kirkjukór Hrunaprestakalls auk einleiks Miklós Dalmay á flygilinn. Edit Molnár stjórnaði samkomunni sem heppnaðist vel í alla staði. Flúðakórinn hafði ekki starfað um tíma en var kallaður saman í þetta tilefni til heiðurs samkomunni.

Vortónleikar Karlakórs Hreppamanna voru haldnir laugardaginn 10. apríl í Félagsheimilinu á Flúðum. Gestakór samkomunnar var Léttsveit kvennakórs Reykjavíkur undir stjórn Jóhönnu V. Þórhallsdóttur. Eftir söngdagskrá var slegið upp balli og dansað fram eftir nóttu. Fullyrðir blaðamaður Morgunblaðsins að ekki hafi fleiri konur stigið á svið í félagsheimilinu áður þar sem Léttsveitin taldi um 70 konur.[1] Í kjölfar vortónleika var haldin Sönghátíð Hrunamanna þar sem fram komu Yngrikór, Stúlknakór og Barnakór Flúðaskóla auk Karlakórs Hreppamanna og Kirkjukór Hrunaprestakalls. Berglind Einarsdóttir söng skemmtileg einsöngslög með stuðningi Karlakórs Hreppamanna.

Leirubakkaferð var vorferð kórsins á þessu ári, farinn 7. maí. Á ferðalaginu var ákveðið að taka lagið inn í Sandfelli og var það kveikjan að söng á hátíðarsamkomu þegar Forseti Íslands lagði hornstein Sultartangavirkjunar rúmri viku síðar. Söngurinn kórsins hljómaði svo vel inn í stöðvarhúsi virkjunarinnar að ekki var um annað að ræða en að fylgja þessu eftir á samkomunni sjálfri. Samkoman var hin virðulegasta, haldin inni í stöðvarhúsi Sultartangavirkjunar. Kórinn lét sönginn óma um bergið meðal annars með tækifæristexta Hreins Þorkelssonar um „afl náttúrunnar“ og „hófsemi mannskepnunnar“.[2] Þessi flutningur var vissulega toppurinn á starfsvetrinum og því kærkomið að fara í sumarfrí að honum loknum.


[1] Morgunblaðið28. apríl 1999, bls. 28.

[2] Sunnlenska fréttablaðið 19. maí 1999, bls. 4.