Reiðtúrinn 2012

Alltaf virðist veðrið leika við okkur í reiðtúrum karlakórsins en sjaldan hefur það þó verið eins frábært eins og í þessum. Áformað var að hittast hjá Agnari á Ísabakka og ríða yfir í Tungur yfir hina nýju Hvítárbrú og svo áfram yfir Tungubrú upp hjá Fellskoti og þar niður að ánni aftur og fara þar óþekkta og fallega leið upp að Tungnaréttum. Eftir stutt stopp í réttunum átti svo að ríða til baka í grill að Ísabakka.  Allt gekk þetta upp og lagði fjölmennur hópur karla og kvenna af stað um tvöleytið. Rúnar B. Guðmundson bóndi í Vatnsleysu og Steini í Haukholtum höfðu veg og vanda af undirbúningi ferðarinnar undir vökulu auga skemmtinefndarformannsinns Skúla Guðmunds.

Gekk allt vel framan af nema brennandi sólin og hitinn kallaði fram mikinn þorsta sem menn reyndu hvað þeir gátu að svala með ýmsum veigum sem þeir höfðu meðferðis. Gengu menn óvenju hratt á birgðarnar og má segja að vökvaþurrð hafi verið orðin áður en menn komust í fyrsta alvöru áningastað. Áður en við náðum þangað  lenti hópurinn í miðju merarstóði, líklega frá Fellskoti.  Var ekki sökum að spyrja að gríðarlegur rekstrarhamur rann á bændur í hópnum og ráku þeir merarnar þarna fram og aftur stjórnlaust með formælingum og skömmum svo að á tímabili leit út fyrir að  túrinn leystist upp í tóma vitleysu.  Merarnar sem voru greinilega skynsemdar skepnur sáu að lokum sitt óvænna og forðuðu sér frá þessum trylltu, rauðþrútnu andlitum svo að hópurinn komst að lokum í áningarstað.

Eftir þetta hestaat voru flestir viti sínu fjær af þorsta og virtist næst blasa við að menn myndu henda sér í Tungufljót í stórum stíl í þeim tilgangi að svala þorsta sínum með fyrirsjánlegri fækkun í kórnum. En það var eins og Rúnar B. hafi séð þetta allt fyrir því hann fór  á undan hópnum að ánni og fann þar spotta sem hann togaði  kröftuglega í. Menn og konur ráku upp stór augu þegar í ljós kom að á enda spottans var netpoki, ekki með fiski í heldur nokkrum ísköldum bjórkössum.  Rúnar B. var í töluverðri hættu þegar kórfélagar þustu að honum og rifu af honum bjórdósirnar og sturtuðu í sig af áfergju. Fjölmargir kórfélagar sem fram til þessa hafa verið fráhverfir áfengi létu þau fyrirheit lönd og leið og líf án áfengis var fjarri huga þeirra á þessari stundu en í staðin kom þetta tryllingslega augnaráð sem varði það sem eftir var ferðar.

Þessa aðferð notaði Rúnar B. til að lokka allt liðið alla leið upp að Réttum; alltaf þegar áð var þá stökk hann útí á og dró að landi bjórkassa og hélt þannig mannskapnum tiltölulega rólegum. En það er nokkuð ljóst að þetta er mikil hlunnindajörð þessi Vatnsleysa og það má vera að þar sé vatnsþurrð en bjórþurrð er þar ekki. Ábyggilega er engin betur til þess fallin en Rúnar B.  að búa þar enda stendur B. –ið í nafni hans fyrir Bóndi að því er kunnugir fullyrða.

Þegar uppí Réttirnar var komið tók ekki síðra við; Marta frá Heiði beið þar með kræsingar, meiri bjór, nýbakað brauð og álegg öllum til mikillar gleði auk þess sem Brynjar bauð mönnum að bergja af 5 lítra viskíflösku sem kórinn hafði fært honum á fertugsafmæli hans. Þau hjón eiga heiður skilin fyrir móttökurnar. Sumir vildu nú meina að handbragð Brynjars væri á brauðinu eða a.m.k. fingraförin hans og hann ætti því heiðurinn af bakstrinum en aðrir héldu því fram að hann hefði sennilega laumast í deigið og borðað af því og það skýrði fingraförin. Sem er slæmt ef satt er því að það er rakin leið til að fá njálg að borða hrátt deig!  Svona eftir á að hyggja gæti þetta þó skýrt einkennilegt reiðlag Brynjars sem ýmist hossaðist á skeiðlulli eða harðastökki.

Eftir gott stopp og nokkur lög var haldið af stað til baka en nú var farið hinumeginn Tungufljóts. Þegar hópurinn nálgaðist Ísabakka mátti finna matarilminn og heyra í Agnari kátum söngla yfir lærunum á grillinu. Allt klárt og stórveisla hjá Agnari og Jóni kokki. Jón kokkaði einnig í okkur í síðasta reiðtúr og allir lifðu það af og hann getur því enn státað af því að hafa aldrei misst mann vegna matargerðarinnar. Agnar hafði notað tímann vel á meðan hinir voru í reiðtúrnum og m.a. kennt Magga á Kjóastöðum að keyra fjórhjól með bundið fyrir augun.

Mikið fjör var svo um kvöldið og komust sumir jafnvel á trúnaðarstigið og játuðu syndir sínar og fleira. Mátti þar til dæmis heyra Helga Má sakbitinn viðurkenna að hafa margsinnis lagt í bílastæði fyrir fatlaða,  Keli játaði skömmustulegur að hafa skrópað á nokkrum æfingum karlakórsins til að horfa á  „Leiðarljós“ með konunni og Skúli viðurkenndi að ala með sér þann draum að komast aftur í  annan bassa. Undirritaður man ekki lengur hvaða sakir hann játaði á sig en þær voru víst allnokkrar.

                                                                                                                                                                    ÞJ.