Karlakórsreiðtúrinn 2009

Skemmtinefnd kórsins fann ekki góðan tíma fyrir útreiðartúr vorið 2009 eins og venja er til og um tima leit út fyrir að ekkert yrði farið í reiðtúr þetta árið. Nefndin skynjaði þó vaxandi pressu á að sleppa þessu ekki alveg og ákveðið var að stefna á 19. september. Vætusamt var búið að vera í nokkurn tíma áður en sú dagsetning rann upp með logni og blíðu. Ákveðið var að hittast við nýju reiðhöllina í Torfdal á Flúðum og skyldi riðið til Einars Loga í Miðfelli eftir svokallaðri „slóð fiðrildanna“ í Götulandi. Þar var áð í góða stund og boðið uppá veitingar hjá Einari og Öddu. Hafi þau þökk fyrir hlýjar móttökur.

Þaðan var haldið að Birtingaholti eftir nýjum vegi sem hafði hlotið nafnið Vínlandsleið. Nefndin ákvað að í Birtingaholti skyldi tekið á móti hópnum með höfðinglegum veitingum og mannskapurinn skyldi einnig leystur út með gjöfum, að sjálfsögðu án nokkurs samráðs við þá heimamenn Sigurð og Ragnar. Þeir félagar brugðust ekki vonum okkar og tóku á móti hópnum með glymjandi karlakórstónlist og hressandi drykk. Nokkrir héldu að drykkurinn sá væri saklaust límonaði og drukku eins og svaladrykk í blíðviðrinu en sáu ekki til sólar eftir það. Hópurinn var síðan leystur út með gjöfum vandlega innpökkuðum sem í reyndist nesti, alvöru svaladrykkur og ½ kexkaka sem kom að góðum notum fyrir þá sem komu langt að. Hafi þeir félagar og þeirra makar þökk fyrir höfðingskapinn.

Úr þessu fór áningastöðum að fjölga og menn fundu knýjandi þörf hjá sér að taka lagið og segja sögur. Skiluðu menn sér að lokum flestir í Syðra- Langholt í hlöðuna hjá Simma. Tóku menn þar óspart til matar síns, þ.e. þeir sem ekki voru orðnir saddir af drykk eða kexkökumauli.

Í auglýsingunni fyrir reiðtúrinn var greint frá því að verðlaun yrðu veitt fyrir fegurð í reið, frumkvæði í söng á leiðinni, og nýr keppnisflokkur var kynntur til sögunnar sem var umhyggjusamasta eiginkonan. Tekið var fram að skemmtinefnd yrði dómnefnd og mútur leyfðar.

Í flokknum „fegurð í reið“ komu afar fáir til greina. Nokkrir keppendur byrjuðu afar vel, sátu beinir í baki, hnarreistir með fætur með síðum en fljótlega kom í ljós að annað og verra reiðlag var þeim mun tamara. Þeir sigu fljótlega í keng, olbogar sem og fætur vísuðu sem næst lárétt út frá reiðskjótanum og duttu þeir því fljótlega úr keppni. Sumir þeirra lágu undir grun um að hafa smakkað áfengi og var rætt um að réttast hefði verið að vísa þeim úr keppninni samstundis og jafnvel kórnum ef þeir yrðu staðnir af því aftur.

Einn kórfélaginn bar höfuð og herðar yfir aðra í bókstaflegri merkinu og var þar Gylfi nokkur Þorkelsson. Umsögn dómnefndar var á þessa leið:

Keppandi þessi er fasmikill og prúður, þó ekki hárprúður en hárvöxtur dreifist nokkuð jafnt um höfuð sem og búk allan. Brúnaþungur á stundum og alvörugefin en stutt í fíflaganginn eins og títt er með Laugvetninga. Eyrnastaða allgóð. Bak óvenjulangt og allsveigt, fattur á stundum. Hann er limafagur þó stórlima sé, fótagerð góð, útskeifur nokkuð í hvíldarstöðu. Þéttur á velli og nokkuð vambmikill, samræmi nokkuð gott en geðslag sveiflukennt. Viljugur við písk og spora.

Eftirfarandi kviðlingur varð til við þetta tilefni:

Hér er kempulegur kall úr sveit.
Meðal kvenna fer hér kliður.
Anna María ein þó veit
hvernig vaxinn hann er niður.

Niðurstaða í flokknum „frumkvæði í söng“ reyndist vandasamari og lá við uppþoti og slagsmálum í dómnefndinni út af því.

Keppnin fór hægt af stað og bar lítið á söng framan af. Friðgeir rak þó upp mikið gól snemma og menn bjuggu sig strax til að taka undir. Það kom þó fljótlega í ljós að hestur hafði stigið á tána á honum svo að ekkert varð meira úr söng í það skipið. Menn færðust þó allir í aukana þegar líða tók á ferðina og hrundu menn í söng við minnsta tilefni og kepptust mjög og sungu hver ofan í annan en sjaldan sama lagið. Lárus þagði ekki úr þessu þrátt fyrir að skýrt hefði verið tekið fram að hann hefði ekki keppnisrétt í þessari grein. Sigurveigari var Agnar Jóhannsson og var sérstaklega tekið fram að þó hann hefði látið alldólgslega og ógnandi við aðra dómnefndarmenn í atkvæðagreiðslunni þá hefði það til þess að gera ekki haft mikil áhrif á niðurstöðu dómnefndar.

Mestur spenningur var þó fyrir nýjasta keppnisflokknum „umhyggjusamasta eiginkonan“ og þótti gleðilegt hvað margar komu til greina sem vinningshafar þar. Nokkur dæmi um umhyggju kvennanna skulu hér nefnd.

Helga hans Gussa sást gyrða hann, snýta honum og að lokum hjálpa honum á bak við Miðfell en margir hafa séð að hann getur þetta oftast hjálpalaust.

Loftur náði ekki andanum eftir að hann reyndi að syngja Kristján í Stekkholti með tenórrödd. Sigga hans brást þá skjótt við og beitti munn við munn aðferðinni og blés í hann lífi að því er sumir töldu. Aðrir voru á því að Sigga hefði bara misst sig og ekki staðist hann.

Marta sást taka Brynjar Heimlich-taki þegar lærleggur stóð í honum í matnum hjá Simma og brytjaði svo matinn eftir það á diskinn hans eins og hún er vön heima.

Engin þeirra toppaði þó konuna sem féll á kné sér og reimaði skóna fyrir mann sinn. Það var greinilegt að þetta hafði hún gert margsinnis vegna þess að á sömu stundu og hún reimaði skóna hans horfði hún þessum ástleitnu, umhyggjusömu augum á hann. Hún þurfti ekkert að horfa á hvað hún var að gera eins og við karlarnir. Það sem getur skýrt þessa óvenjulegu hegðun að hluta til er að þau eru nýgift. Annað sem studdi við þetta val var að þegar Sigurður Ingi var beðinn að koma og veita þessum verðlaunum viðtöku stökk Elsa til og gerði það fyrir hann.

 

 

Þorleifur Jóhannesson formaður dómnefndar.