Það var hinn 30. júlí 2025 sem Karlakór Hreppamanna lagði, ásamt Sprettskórnum, upp í mikla reisu. Ferðinni var heitið vestur um haf og meginmarkmiðið þátttaka í hátíðarhöldum í Vesturheimi vegna 150 ára afmælis landnáms Íslendinga í Gimli, Kanada. Íslendingadagurinn er haldinn hátíðlegur ár hvert þar í Nýja-Íslandi, um verslunarmannahelgina, en einnig „sunnan við línu“, í Görðum og Mountain í Norður-Dakota þar sem einnig var landnámsbyggð Íslendinga, m.a. Stephans G. Stephanssonar.

Kórarnir flugu einmitt frá Íslandi til Bandaríkjanna, lentu í Minneapolis og dvöldu þar tvær nætur á ágætu hóteli

steinsnar frá þeim stað sem næstur er Niflheimi, nefndum „Mall of America“ á tungu þarlendra. Þrátt fyrir fordóma og efasemdir um þjónustustig landamærastöðva rann hópurinn í gegn eins og bráðið smér og kom sér fyrir á hóteli án vandkvæða.

Daginn eftir, 31. júlí, gafst tími til að skoða Minneapolis, og hliðar- og höfuðborgina Saint Paul, en þarna ekki langt undan eru upptök hins mikla fljóts, Mississippi, í Itasca-vatni, sem rennur svo niður slétturnar miklu alla leið í Mexikóflóa.

Þetta var „frjáls dagur“ og hópurinn tvístraðist. Dágóður hópur fór í strætó með Arinbirni Vilhjálmssyni, fararstjóra Bændaferða, til St. Paul og skoðaði sig um þar en aðrir fóru í smærri hópum eða á eigin vegum í rannsóknarferðir, þó ekki væri nema til að finna veitingastaði og krár. Borgin byggðist upp við ármót og þar í Mississippi er fosskríli

sem gat knúið myllur og fyrr á árum var þarna miðstöð hveitiframleiðslu í Bandaríkjunum, raunar ein sú mikilvægasta í veröldinni, og nægir að nefna „Pillsbury“ því til sönnunar. Eins og víða í þessu mikla landi er borgin í hornréttum ferningum og lítið um spennandi arkitektúr eða sögulegar menningarminjar eins og við erum vön að dást að í mörgum evrópskum borgum.

Ágústmánuður rann upp og runnið var af öllum. Dagurinn tekinn snemma, því framundan var 9 tíma rútuferð frá Minneapolis til bæjarins Grand Forks í Norður-Dakota, með viðkomu í smábænum Alexandríu, þar sem skoðað var áhugavert Landnemasafn.

Rútuferðin var upplifun fyrir íslenska sveitamenn, endalausir heiti- og maísakrar, trjálundir eins og eyjar í úthafi, og lítil stöðuvötn á víð og dreif. Ísaldarjökulrutt, marflatt landslag svo langt sem augað eygði í allar áttir, tímunum

saman. Komið á hótel í Grand Forks undir kvöld. Það vakti athygli og undrun Íslendinganna að í þessum heimshluta hefur „umhverfisvitund“ ekki numið land. Á hótelum er etið af einnota pappadiskum með einnota plasthnífapörum og kaffið drukkið úr einnota pappamálum. Allt fer svo í sama dallinn, matarleifar, plast og pappi, og fæst af þessu mikill sparnaður í starfsmannahaldi og uppþvottavélum.

Daginn eftir, 2. ágúst, tók alvaran við. Ekið var frá Stórugöfflum að Fjalli (ekki á skeiðum), sem er u.þ.b. 5 metra há alda í landslaginu. Þar trónir sem sagt vesturíslenski smábærinn Mountain og framundan voru mikil hátíðarhöld, með skrúðakstri um þessar tvær götur bæjarins og kórinn söng við athöfn að lokinni ítarlegri ræðu íslenska sendiherrans, sem reyndar er frú. Þetta var heilmikil upplifun, kórinn settur upp á vagna sem fornir Dýra-Jónar drógu með sínum vinalegu vélarskellum. Að hátíðinni lokinni ókum við að Þingvallakirkjugarði, þar sem er minnismerki um Káinn og leiði hans. Kirkjan brann til kaldra kola fyrir fáum árum og ryðguð kirkjuklukka í grasi er eina ummerkið. Þaðan lá leiðin að landnámi Stephans G. í Görðum, hvar nú er einungis uppistandandi minnisvarði um skáldið.

Nú var stefnan sett á Winnipeg í Kanada, með stuttu stoppi í vegasjoppu, sk. „trukkasjoppu“. Við landamærin hófust ævintýrin. Rúturnar voru þrjár og voru þær teknar inn í bílskúr, hver af annarri. Fólkið rekið út og í biðröð við landamæravörslu, þar sem spurt var um tvennt: „Ertu með skotvopn?“ og „ertu með áfengi?“ Síðan beið hópurinn meðan verðir leituðu í rútunni. Fyrsta rútan rann fyrirhafnarlaust í gegn en nokkrar áhyggjur höfðu félagar í henni af þeirri næstu, því í henni var haft fyrir satt að væri mesta fjörið. Um það var ort:

Af setunum sár í rassi,

en samveran fyrsti klassi.

Nú skrælnar úr þurrki

af langferðaskurki

allt – nema blauti bassi.*

Enda kom í ljós að landamæraverðir voru ekki hýrir á brá við upphaf leitar í þeirri rútu. Ekki fundust þó skotvopn. Það varð til happs að einn kórfélaginn hafði lokast inni á kamri aftast í rútunni og öll athyglin og meginþungi aðgerða næstu mínúturnar beindist að því að ná honum út. Það tókst og hinn ólöglegi farangur gleymdist – og slapp í gegn!

Seint að kvöldi náði hópurinn á hótelið í Winnipeg, hvar dvalið var næstu fjórar nætur.

Þau leituðu vínsins, og vopna,

og vildu pokana opna.

En einhver kallaði æstur:

„Er á kamrinum læstur!!!“

Athyglin að þessu teymdist

svo áfengissmyglið allt gleymdist.*

Að morgni 3. ágúst bauð Arinbjörn upp á leiðsögn um helstu slóðir hinna gömlu Íslendingabyggða í Winnipeg,

forvitnileg ganga um Goolies-hverfið, en það voru Íslendingarnir kallaðir í daglegu tali, viðurnefnið jafnvel talið eiga rót sína í góðtemplaramenningunni, sem var ærin meðal landa vorra; „good templars“ orðið að „goolies“. Um miðjan dag var haldið til Gimli við Winnipegvatn, þar sem aðalhátíðarhöldin fóru fram. Gimli er tvímælalaust mest aðlaðandi bærinn sem við heimsóttum. Þar var svipaður skrúðakstur og í Mountain, bara stærri í sniðum, og var kórinn dreginn á heyvögnum, standandi eða sitjandi á böggum, og tók lagið með reglulegu millibili fyrir mannfjöldann sem raðaði sér meðfram

strætum. Kórinn söng sína aðaltónleika á hátíðarsviðinu, og einnig fyrir þakkláta hlustendur á elliheimilinu í Gimli, og endaði daginn í „bjórgarðinum“, sem var vel þeginn útúrdúr eftir

pallastöður í hitanum. Síðan ekið aftur á hótelið í Winnipeg.

Enn var ekið til Gimli þann 4. ágúst, sem var aðalhátíðardagurinn. Nú tóku við hátíðarræður, einar 15 talsins, og kórinn uppi á sviði á meðan. Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, bar þar af mörgum góðum ræðumanninum, flutti fína ræðu, og kórinn söng þjóðsöngva Kanada, Íslands og Englands, bæði God seif ðe kíng og Eldgömlu Ísafold.

Segja má að hinni formlegu dagskrá væri nú lokið, þó ýmislegt væri enn eftir. Þann 5. ágúst var haldið til Árborgar, fyrst á Víðines, en þar tóku íslenskir „flóttamenn“ land þann 22. október 1875, í aftakaveðri, á leið sinni á fyrirhugaðan áfangastað lengra norður með Winnipegvatni. Þetta var upphafið, og undir steini á vatnsbakkanum fæddist um nóttina fyrsti Íslendingurinn á Nýja-Íslandi, Jón Ólafur Jóhannsson. Við steininn er nú minnisvarði um atburð þennan. Frá Víðinesi lá leiðin á byggðasafnið í Árborg. Fyrirmyndin að því er Árbæjarsafn í Reykjavík.

Húsakostur og landbúnaðartæki frá landnemum af ýmsu þjóðerni; íslensku, úkraínsku, pólsku, frumbyggja o.fl. Mörgum þótti þetta vera hápunktur ferðarinnar. Móttökurnar ótrúlegar og gestirnir skynjuðu vel stoltið og metnaðinn fyrir íslensku rótunum, sem er allt um lykjandi þarna á Nýja-Íslandi. Íslenskumælandi fólk fræddi hópinn og leiddi um safnið, m.a. mæðgur þrjár, Signý, Svala og Sigrún Þóra, sem allar tala furðu góða íslensku, konur á besta aldri. Um það var ort:

Þó íslenskt mál sé æ að dala

það enn mun tóra.

Lyfta anda, svo tært nú tala,

tveggja kóra,

mæðgurnar, þær Signý, Svala

og Sigrún Þóra.*

Frá Árborg hélt hópurinn út í Heklueyju, sem einnig er nefnd Mikley. Þar áttum við skemmtilga stund í kirkjunni með íslenskættuðum hjónum sem fræddu okkur og sungu fyrir okkur sálm. Kórinn tók lagið í kirkjunni og feðgarnir Bjarni og Atli sömuleiðis. Það hefði gjarnan mátt gefast meiri tími þar í eynni, mjög fallegt og snyrtilegt allt og forvitnilegt. En dagskráin var stíf, langur akstur milli staða og kvöldveisla beið í Gimli. Enduðum góðan dag í Winnipeg.

Daglega dagskráin stíf

(en dásamlegt samt, þetta líf)

og því mátti heyra:

„Við þurfum að keyra!

Drífa sig, drengir og víf!“*

Segja má að 6. ágúst hafi verið í „snautlegra lagi“ eftir það sem á undan var gengið. Kl. 11 í rútuna upp á flugvöll, með tilheyrandi flugvallahangsi og langri bið eftir rútu á hótelið þegar lent var í Toronto. Komum þangað kl. 22 að staðartíma. Nokkur þreyta í hópnum, sem lét sér þó smávægilega hnökra ekki fyrir brjósti brenna, jákvæður andi sveif yfir vötnum allan tímann og stemmningin góð.

Að þvælast um, þversum og langs,

við þreytandi flugvallahangs

mun of mikið vera   

og þá útafvið gera

sem ekki‘ eru góðir til gangs.*

Sér fátt fyrir brjósti lét brenna,

við barlóm sig enginn vill kenna,

og jákvæður andi

í ágætu standi

er barþjónninn bjórinn lét renna.*

Síðustu tvær næturnar var hópurinn í Toronto, nema Snorri og Vigdís sem skruppu til Boston, og flaug þaðan heim til Íslands, lent í Keflavík að morgni 9. ágúst.

Dagurinn í Toronto, hófst á því að helftin úr hópnum fór að Niagarafossum, á tveimur rútum, þeirri hvítu og þeirri svörtu. Þegar skammt var liðið á ferð bilaði sú hvíta, sú sama og olli „biðinni löngu“ á flugvellinum kvöldið áður. Viðgerðarmaður kom á vettvang eftir rúman hálftíma og eftir skamma skoðun reyndist loftslanga undir ekilssæti hafa rofnað. Með dúkahníf og tengistykki að vopni kippti hann öllu í liðinn og ferð hélt fram sem horfði. Þetta vakti gleði meðal ferðafélaga, sem slógu á létta strengi og köstuðu nokkrum vísum milli sín, og milli bíla:

Atli var t.d. snöggur að yrkja:

Já, mygluð er miðaldarúta.

Þar megum því höfðinu lúta,

en fáum við freyðandi stúta,

það flestalla leysa mun hnúta.

Fleiri vísur voru ortar:

Af krafti loftið hvissast út,

er karlinn ekur, slyngur.

Er hér gat á einum kút

eða Þingeyingur?*

Við nánari umhugsun komu þessar vangaveltur:

Er nú hérna enn á ferð

2. hrausti bassi?

Eða loft af æðri gerð

úr ekils magra rassi?*

Rútan komst af stað en var þó ekki rásföst og grunur um hlaup í stýri:

Ei á vagnsins vaggi hlé,

veit ei hvert við rötum,

eins og riðið alltaf sé

eftir kindagötum.*

Við bilanafréttir þessar komu skilaboð frá Arinbirni, fararstjóra, úr hinni rútunni, að á heimleiðinni fengju þeir sem hættu sér með hvítu rútunni til baka ómældan bjór en hinn hópurinn, sá í þeirri svörtu, ekkert, eða eins og Arinbjörn orðaði það sjálfur:

Til fossanna keyrir kór

en klúðrin mörg og stór

og aumt verður yfirklór

en allir fá kaldan kaffibolla.

Ekki fækkaði í áhættuhópum við þessi tilmæli. „Rúta“ getur merkt fleira en „langferðabíll“, eins og fram kemur í eftirfarandi vísu:

Á bílstjóra ekki er asinn

enda er bifreiðin lasin,

þessi aflóga bredda.

Í dag er ei dansað á rósum

svo Arinbjörn reynir að redda

rútu, með fimmtíu dósum.*

Eftir þetta hökt í upphafi gekk allt eins og í sögu, nema að óneitanlega varð vart við mikinn og sterkan „mannaþef“ aftast í okkar hvítu rútu og fær hvíti liturinn á henni því sömu táknrænu merkingu og felst í viðurnefnum Gissurar, Baldurs og Krists.

Rútan, sem Kristur, er hvít.

Með „kagganum“ áfram ég þýt.

Í alsælu akstursins nýt

við angan af mannaskít.*

Fleira var ort af þessu tilefni, en þær vísur náðust ekki á upptöku.

Hvað um það. Heimsóknin á slóðir Vestur-Íslendinga var stórmögnuð í alla staði. Móttökurnar ótrúlegar, og ekki síst merkilegt að finna hve glatt stoltið af upprunanum skein af öllum.

Kórinn þakkar kærlega frábærar móttökur, alla fyrirhöfnina og gestrisnina, og skemmtilegar stundir í Íslendingabyggðum Vestan hafs.

*(Allar vísur í þessum pistli, sem ekki eru merktar höfundi, eru eftir ritara).