Síðastliðinn laugardag. 8. mars, héldu KKH og Sprettskórinn sameiginlegan æfingadag í Árnesi. Eins og kunnugt er munu kórarnir tveir halda sameiginlega vortónleika í apríl næstkomandi, sem nokkurskonar forspil fyrir ævintýraferð á slóðir Vestur-Íslendinga í Norður-Dakota og Kanada.

Æfingadagurinn tókst svona líka glimrandi vel, og gott ef við karlarnir fundum ekki aðeins meira til okkar en venjulega, að heyra drynjandi tónana frá svo fjölmennum kór, miðað við mjálmið á hefðbundnum æfingum kóranna hvorum í sínu lagi.
Það er kominn mikill spenningur í menn fyrir komandi vortónleika, sem verða þrennir; í Guðríðarkirkju, í Hveragerðiskirkju og í Félagsheimilinu á Flúðum. Að þeim loknum verður hægt að byrja að byggja upp spennu fyrir Ameríkuferðinni!