Bráðskemmtilegt Karlakvöld var haldið þann 1. nóvember sl. Samkoman var að þessu sinni í höndum annars bassa sem að venju leggur sig mjög fram um að gera kvöldið eftirminnilegt og skemmtilegt fyrir gestina. Ari Eldjárn var fenginn til að vera með uppistand og sló hann rækilega í gegn. Menn veltust um af hlátri bókstaflega. Ara var starsýnt á feitt hrossakjötið og hrossabjúgun og sagði nokkuð öruggt að læknirinn hans fengi bráðakransæðastíflu eða hjartaáfall við það eitt að horfa á það. Raunin var þó sú að engan þurfti að stuða með hjartastuðtækinu þó að átið hafi verið með ólíkindum. Kokkurinn sagði að meðalneyslan hafi verið á milli 7 og 800 grömm á mann af kjöti þetta kvöld!! Svo má bæta meðlætinu við það. Greinilegt var að karlarnir komast ekki oft í svona kræsingar. Margir höfðu orð á því að kjötið hafi sjaldan bragðast jafnvel. Þökk sé kokknum Sigga Rabba.

Aðsóknarmet var einnig slegið þetta kvöld því aldrei hafa fleiri komið á þessa samkomu fyrr. Um 300 sæti voru setin þetta kvöld. Allt gekk samt eins og smurt enda í öruggri veislustjórn þeirra Einars Loga og Lofts úr öðrum bassa.

Annar bassi hafði einnig gert nokkrar kynningarmyndir um reglur kórsins ef einhverjir gestanna myndu vilja ganga í kórinn. Reglurnar hafa verið hertar lítillega eins og þar kom fram vegna mikillar aðsóknar í kórinn. Vonandi verða þessar reglur samt ekki til að fæla menn frá því að sækja um inngöngu.

Kórinn þakkar þeim sem komu fyrir skemmtilegt kvöld og stuðningin á þessari mikilvægustu fjáröflunarsamkomu kórsins.