Karlakór Hreppamanna fagnaði 20 ára afmæli sl. vor með veglegum afmælistónleikum. Þessi tuttugu ár hafa liðið ógnarhratt og sagt er, ef að mönnum finnst svo vera, þá sé skýringin sú að það hafi verið gaman. Toppurinn á þessu afmælisári, fyrir utan vortónleikaröðina, var ferð kórsins til Munchen í Þýskalandi dagana 13. – 17. október, skömmu eftir hina miklu bjórhátíð Oktoberfest. Einhverjir félaganna í kórnum höfðu talsverðar áhyggjur af því að bjórþurrð gæti verið á þessu svæði eftir hátíðina. Það reyndist þó ekki vera okkur til mikils léttis. Þessa daga var brakandi blíða í suður Þýskalandi svo að það var gott að geta svalað þorstanum með bjór. Það getur líka verið nauðsynlegt að væta kverkarnar ef mikið er sungið, sem við gerðum óspart eða í hvert sinn sem á leið okkar urðu tveir eða fleiri Þjóðverjar. Já mikið var sungið og og margt var skoðað en uppúr stendur ferð okkar í Arnarhreiðrið eða Kehlsteinhaus sem byggt var 1938 og var gjöf Þriðja ríkissins til Hitlers á fimmtugsafmæli hans. Húsið stendur á fjallstoppi í 1834 metra hæð og þaðan er stórfenglegt útsýni. Við vorum heppin, stafalogn og heiðskír himinn svo útsýnið var óskert og svo mikið að Gylfi Þorkelsson fékk snert af heimþrá er honum sýndist glytta í fjöllin heima:

Nú er hugur norður frá,
nýtir frjáls vindana.
Héðan Arnarhreiðri frá
hyllir Kálfstindana.

Við erum nokkuð vissir um að söngur kórsins þarna uppi heyrðist til a.m.k. þriggja landa; Þýskalands, Austurríkis og jafnvel Ítalíu því undir tók í fjöllunum. Hádegisverður var svo snæddur í Schönau am Königssee, en til þess að komast þangað þurfti að sigla yfir Königssee sem er annað dýpsta vatn Þýskalands. Þarna er mikil náttúrufegurð sem naut sín vel í veðurblíðunni.

Þessi ferð var einstaklega vel heppnuð í alla staði og verður lengi í minnum ferðafélaganna höfð. Gylfi orti þessa á heimleiðinni;

Nú er komið napurt haust
og nokkuð fölur kórinn.
Það er ekki þrautarlaust
að þamba svona bjórinn.

Hér er hægt að skoða myndir frá Þýskalandsferðinni: München – 2017. (Ljósm.: Áslaug Bjarnad.)

-ÞJ