kvennakorhafn nov2016w

Kvennakór Hafnarfjarðar gerði okkur KKH þann heiður að skella sér austur að Flúðum til að syngja á vortónleikunum okkar í apríl sl. Við náðum að endurgjalda þann greiða 16. nóvember þar sem þær héldu tónleika í Hásölum í Hafnarfirði á degi íslenskrar tungu. Þessi viðburður kallaði á rútuferð í fjörðinn og rútuferðir hafa alltaf verið vinsælar hjá kórnum, að minnsta kosti hjá flestum þar. Tilefnið; Dagur íslenskrar tungu, kallaði á að sungnar yrðu einhverjar tónlistarperlur við texta eftir höfuðskáldin Jónas Hallgrímsson og Hannes Hafstein. Fyrir valinu urðu klassísk karlakórslög eins og „Fjallið Skjaldbreiður“,  „Er sólin hnígur“ og „Áfram“ en einnig þjóðsöngur hreppamanna „Árnesþing“. Hásalir voru þéttsetnir og tónleikarnir tókust í alla staði vel. Prógramm Kvennakórsins fjölbreytt og skemmtilegt. Sumum fannst kannski vanta fleiri í 2. bassa hjá þeim en að öðru leyti góður söngur. Við félagar í KKH viljum þakka þeim kvennakórskonum fyrir frábærar mótttökur og vonum að það verði áframhald á samstarfinu.