kkh harpan2016c

Sá merki viðburður átti sér stað dagana 12.-14. maí s.l. að haldið var í Hörpunni norrænt karlakóramót, The Nordic Male Choir Festival 2016. Tuttuguogfjórir karlakórar, íslenskir, færeyskir, norskir sænskir og finnskir tóku þátt í þessu móti. Einnig var þar margverðlaunaður svissneskur gestakór Männerstimmen Basel. Undirbúningur allur var í höndum Karlakórsins Fóstbræðra, sem með því að halda þetta mót, sló tvær flugur í einu höggi því þeir fagna einnig 100 ára afmæli sínu á þessu ári. Fóstbræður hafa sennilega aldrei verið fleiri eða rúmlega eitthundrað og líklega aldrei betri.

KKH bessastadir2016c

 

Mótið hófst með móttöku kóranna á fimmtudeginum. Á föstudeginum var svo móttaka á Bessastöðum. Forseti Íslands tók á móti formönnum og stjórnendum kóranna. Okkar fulltrúar þar voru Edit Molnár stjórnandi kórsins og Helgi Már Gunnarsson formaður. Á föstudeginum var einnig kvartettasamkeppni og tónleikar um kvöldið þar sem fram komu fjórir erlendir kórar, Karlakór Reykjavíkur, Fóstbræður, Stórsveit Reykjavíkur ásamt Agli Ólafssyni. Laugardagurinn var allur undirlagður í karlakórsöng því allir kórarnir komu fram og sungu sitt prógramm í 30 mínútur hver. Ókeypis var inná þann hluta mótsins og margir nýttu sér það.  Karlakór Hreppamanna fékk þann heiður að syngja í Eldborg sitt hálftíma prógramm, þar voru einnig Fóstbræður og Karlakór Reykjavíkur.

Um kvöldið tók svo kórinn þátt í samsöng í Eldborg, 1000 karlar eða hér um bil. Það var sannkölluð gæsahúðarstemning í Eldborg meðan það stóð yfir. Sungið var á íslensku, norsku, sænsku, finnsku og færeysku stór og mikil lög eins og „Finlandia“ eftir Sibelíus, „Olav Trygvason“ og „Ár vas alda“. Má teljast merkilegt að glerhjúpurinn í Hörpunni hafi haldið þegar kórarnir sungu af fullum krafti. Það fór enginn ósnortinn frá þeirri upplifun.                           

Mótið endaði svo á hátíðarkvöldverði í Hörpu. Þar voru glæsilegar veitingar og skemmtiatriði, m.a. söng þar Dísella Lárusdóttir sem brá sér heim beint frá Metropolitan óperunni til að syngja þarna og Jakob Frímann Magnússon stjórnaði samkomunni af röggsemi. Að sjálfsögðu brustu  karlarnir svo  hvað eftir annað í söng á milli atriða. Viðburður þessi var ógleymanlegur þeim sem þátt tóku og má segja að Fóstbræður hafi fært karlakórssöng á annað og hærra stig með þessu móti.

Männerstimmen Basel vildu enda frækna tónleikaferð sína í Skálholti á sunnudeginum og óskuðu eftir að Hreppamenn kæmu þar fram með þeim. Sjálfsagt var að verða við því. Merkilega góð aðsókn var þrátt fyrir stuttan fyrirvara og þeir sem mættu urðu ekki fyrir vonbrigðum. Piltarnir í Männerstimmen Basel kórnum eru margir fyrrverandi söngvarar í drengjakórum en komnir „á aldur“ þó aldursbilið sé einungis 18 til 32 ára. Þeir klæðast ekki kjólfötum né hefðbundnum kórbúningum heldur háleistum og stuttbuxum með axlabönd. Söngur kórsins var einstakur og raddirnar á köflum yfirnáttúrulegar. Samkomugestir risu úr sætum með miklu lófaklappi og uppskáru nokkur aukalög við mikinn fögnuð.

Það var lærdómsríkt fyrir Karlakór Hreppamanna að taka þátt í þessu öllu og kemur sér vel því að kórinn fagnar 20 ára afmæli sínu á næsta ári og mun gera sitt besta til að toppa þetta allt saman.

ÞJ

Myndir úr Hörpunni

Myndir úr Skálholti