Karlakór Hreppamanna leggur nú lokahönd á undirbúning árlegra vortónleika sinna sem eru reyndar óvenju snemma þetta árið. Að þessu sinn heldur kórinn þrenna tónleika, þá fyrstu í Selfosskirkju 21. mars og sama dag í Félagsheimili Hrunamanna á Flúðum. Síðustu tónleikarnir verða svo í Guðríðarkirkju í Reykjavík miðvikudaginn 25. mars. Einsöngvari á öllum tónleikunum verður Þóra Einarsdóttir sópran. Stjórnandi kórsins er Edit Molnár og píanóleikari Miklós Dalmay.
Þema dagskrárinnar að þessu sinni er náttúra, maður, hestur. Auk lagavals í anda þess efnis verður sýning á völdum ljósmyndum úr stóru safni Sigurðar Sigmundssonar frá Syðra-Langholti þar sem saman fer í myndum viðfangsefni tónleikanna. Úr nógu er að velja þar sem þessi ótrauði Hreppamaður ku aldrei hafa gleymt myndavélinni á ferðum sínum um fagra náttúru landsins á mót manna og hesta. Með myndasýningunni vill kórinn minnast þessa heiðursmanns.
Kórinn hefur fengið til liðs við sig Þóru Einarsdóttur óperusöngvara sem trónir nú á toppi íslenskra sóprana. Skemmst er að minnast frábærrar frammistöðu hennar í Óperunni Ragnheiði eftir Gunnar Þórðarson og Friðrik Erlingsson þar sem hún fór með titilhlutverkið. Hún hefur sungið í fjölmörgum óperuhúsum og á ýmsum öðrum vettvangi víða um lönd og hvarvetna hlotið lof fyrir söng sinn. Þóra syngur sóló með kórnum auk nokkurra einsöngslaga við píanóleik Miklósar.
Edit Molnár stjórnar kórnum eins og áður og Miklós Dalmay leikur á píanó. Bæði tvö hafa þau skólað kórinn til í þeim listræna metnaði sem á sér enga undankomuleið.
Náttúra – maður – hestur býður upp íslenskar náttúrustemningar, eins og þær gerast ljúfastar, og gustmikil hestalög.
Viðfangsefnið er styrkt af Menningarráði Suðurlands.
Stjórn Karlakórs Hreppamanna.