Róm 2013 

Tvísýn veðurspá fyrir helgina 10.- 14. október fyrir Rómarsvæðið á Ítalíu skyggði svolítið á spenninginn fyrir ferð Karlakórs Hreppamanna þangað.  Síðar kom þó í ljós að þær áhyggjur voru óþarfar því að kórinn fékk hið besta veður þessa daga, 20 – 28 stiga hita.   

Undirbúningur fyrir þessa ferð hafði átt sér nokkurn aðdraganda. Edit, stjórnandi kórsins, hafði um nokkura ára skeið æft inná milli lög úr óperum meistara Giuseppe Verdi og fleiri tónsnillinga með það í huga að halda vortónleikaröð með óperutónlist og kórum úr þekktustu óperunum.
Það varð svo að veruleika vorið 2013.  Kórinn var þá með fullæft prógramm með flottum hermanna- og ræningjakórum og fleira spennandi efni. Það er skemmst frá því að segja að þessir tónleikar tókust afbragðsvel. Rúsínan í pylsuendanum fyrir kórfélagana var hinsvegar þessi ferð til Ítalíu. Niðurstaðan var svo að fara til Rómar um miðjan október.                                                  

Og þvílík borg, Róm! Það mætti helst líkja þessu við að fara í fara í ferðalag í gegnum mannkynssöguna, já og listasöguna. Þúsund ára byggingar frá heimsveldistíma Rómarveldis standa þar svo að segja á öðru hverju götuhorni. Verkfræðikunnátta Rómverja þess tíma var með ólíkindum því að ekki hefur enn tekist til fulls að útskýra hvernig þeir fóru að reisa þessi gríðarstóru mannvirki. Það þætti jafnvel verkfræðilegt afrek að byggja svona í dag.
Stefna stjórnar kórsins í þessari ferð var að skoða, skemmta sér og kynna íslenska karlakórsmenningu fyrir Rómverjum. Ekki lágstemmd markmið það. En það tókst allt að því að við höldum. Mikið var  skoðað það er víst, allir skemmtu sér frábærlega og flestir Rómverjar heyrðu í okkur a.m.k. einu sinni.                                                                                    
 
Kórinn lenti á flugvellinum í Róm kl. 13:00  að staðartíma og ekki laust við að mannskapurinn væri dálítið lúinn þar sem flestir þurftu vakna og koma sér af stað klukkan hálf tvö um nóttina að íslenskum tíma. Margir hvíldu sig og fóru svo í stuttar skoðunarferðir um næsta nágrenni við hótelið. Hótelið var ágætlega staðsett og svo að segja í göngufæri við marga merkilegustu sögustaði Rómar. Stóri dagurinn var svo dagurinn eftir, föstudagurinn 11. október því þá var fyrirhugað að halda formlega tónleika í kirkjunni San Paolo Entro le Mura.  En fyrst var áformað að fara í Vatikanið og skoðunarferðin þangað hófst kl. 11. Við vorum fegin að vera í hópferð þá því að biðröðin í miðasöluna var endalaus að því er virtist. 20.000 manns fara víst þarna í gegn daglega. Það tekur a.m.k. viku að skoða söfnin í Vatikaninu en við spændum í gegnum þetta á 2-3 tímum með gapandi munninn. Kórfélagarnir voru búnir að koma sér upp bláum stuttermabolum merktum Karlakór Hreppamanna svo að auðveldara væri að hafa auga með okkur í skoðunarferðunum.  Fararstjórarnir voru afar ánægðir með þetta og töluðu um að gera þetta að skilyrði í hópferðum hér eftir. Maður elti bara næsta bláa félagann og þetta gekk oftast. Við vorum með litið heyrnatæki í eyranu og gátum því alltaf heyrt í leiðsögumönnunum og þurftum því ekki alltaf að vera að fylgjast með hvar hann var. Undirritaður villtist samt nokkru sinnum og lenti m.a. í töluverðan tíma í japönskum hóp þar sem einn japanin var klæddur í samskonar bláan bol og kórfélagarnir.  Erfitt er að lýsa í orðum mikilfengleika bygginganna, skreytinganna og stærðarinnar á öllu sem fyrir augu bar. Eftirá hafa efalaust margir verið hugsi yfir því hvort að þetta væri nú endilega almættinu þóknanlegt. Nýi Páfinn heyrist manni reyndar vera annarar gerðar en fyrirrennarar hans og hefur sýnt ýmsa tilburði til að tengjast meira almúganum. Einkabíllinn hans er til dæmis gömul drusla sem hann fékk gefins.  

Þegar við vorum búin að skoða hina stórfenglegu Péturskirkju var haldið út á Péturstorgið og fljótlega mátti heyra tónkvíslina á lofti hjá Edit og karlarnir röðuðu sér samstundis upp og hófu upp raust sína. Ekkert bólaði samt á Páfanum en við erum nokkuð vissir um að hann var að hlusta á bak við gardínurnar og heyrði í okkur. Svo var haldið af stað því tíminn var naumur. Stoppað var við Spænsku tröppurnar sem að sjálfsögðu eru eldgamlar og afar fallegar og allajafna fullt af fólki þar, ýmist á torginu fyrir neðan eða á tröppunum. Aftur fór tónkvíslin á loft og karlarnir komu sér fyrir á góðum stað í tröppunum og hófu söng af miklum krafti. Sennilega eru þetta fjölmennustu tónleikar kórsins því þarna voru líklega á annað þúsund manns. Var kórnum vel fagnað eftir hvert lag. Svo mjög að einn af yngri félögunum hafði það á orði að þetta væri í fyrsta skipti sem honum fyndist hann vera svona „celeb“ þ.e. einn af fræga fólkinu. Tilfinning sem við hinir eldri könnumst vel við. Eftir að hafa baðað sig í frægðarljómanum um stund var mannskapurinn rekinn af stað því að nú áttum við eftir að fara heim á hótel skipta um föt og mæta á æfingu í kirkjuna því tónleikarnir voru fyrirhugaðir kl. 17:30. Þetta gekk allt upp því að allir stóðu klárir í kirkjunni klukkutíma fyrir tónleika. San Paolo entro le Mura er stór og falleg kirkja sem var byggð á síðari hluta nítjándu aldar. Kórinn hélt fína tónleika og fékk merkilega góða aðsókn, því að algerlega var rennt blint í sjóinn með þá hluti. Reyndar fór Gulli útá horn rétt fyrir tónleika og náði að lokka nokkrar miðaldra konur inn í kirkjuna. Ekki er ljóst hverju hann lofaði þeim en þær sátu alla tónleikana rjóðar og undirleitar og mændu á Gulla. Að loknum tónleikum var rölt uppá hótel og mannskapurinn gerði sig klárann fyrir kvöldverð sem var í boði kórsins. Mikil stemning var í hópnum er á matsölustaðinn var komið og menn ekki búnir að fá nóg af söng þrátt fyrir ótal tónleika fyrr um daginn. Því miður voru ekki eigendur staðarins eins stemmdir fyrir karlakórssöng og við svo að minna varð úr söng en vilji stóð til. En í stað þess voru bara sagðar sögur og haldnar ræður. Meðal annars hélt fyrrverandi formaður lokaræðu sína þarna og var hylltur vel fyrir. Hann endurtók reyndar ræðuna seinna um kvöldið en í það skiptið á ítölsku eða á mandarínsku því að nokkrir kínverjar sem voru nálægir lögðu undrandi við hlustir. Það var vel tekið á því þetta kvöldið en allir skemmtu sér vel og skiluðu sér heim að lokum. Sumir eignuðust meira að segja pennavini eins og hann Mummi sem kynntist honum Flavio þarna um kvöldið.                                                                                                                                       
Laugardagurinn var svo án skipulags að hálfu kórsins utan að Edit vildi endilega endurtaka leikinn á Spænsku tröppunum þar sem undirtektirnar voru svo góðar daginn áður. Mannskapurinn notaði svo daginn misjafnlega vel, sumir sváfu og hvíldu sig eftir ævintýri síðustu nætur en aðrir drifu sig á fætur eldsnemma og fóru skipulega í allar búðir í Róm sem undirritaður getur staðfest að eru ótrúlega margar. Eftir að flestir höfðu gengið sig upp að hnjám um daginn endaði dagurinnn á máltíð á einhverjum góðum matsölustað og svo hittust allir á Spænsku tröppunum og endurtóku leikinn frá því daginn áður við góðar undirtektir.

Sunnudagurinn rann upp bjartur og fagur og nú var fyrirhuguð skoðunarferð um forna sögustaði Rómar. Rúturnar tvær renndu nú af stað og fyrsta stopp var við hið fræga Navonatorg, Piazza Navona. Navonatorg var á fyrstu öld eftir Krist leikvangur líkt og Colosseum. Þar fóru fram ýmsir íþróttaviðburðir og aðrar hátíðir. Síðar var byrjað að  helluleggja það og um miðja sautjándu öld var það búið að fá á sig þá mynd sem við blasir í dag. Ekki kom þó fram hvort hellulögnin hafi tekið allan þennan tíma. Lögun torgsins er eins og leikvangurinn var en á því eru þrír gosbrunnar hver öðrum fallegri. Sá stærsti, Gosbrunnur hinna fjögurra fljóta, var hannaður af hinum merka Bernini sem m.a. hannaði Péturstorgið. Kórinn tók að sjálfsögðu lagið þarna. Voru óvenju margir sem sungu annan bassa þarna um morguninn af einhverjum ástæðum. Þaðan var svo haldið að hinu sögufræga Panþeon hofi sem er í göngufæri frá Navonatorgi.

Þá var haldið í rúturnar og ekið að Forum Romanum sem er  stórt svæði í hjarta Rómaborgar þar sem miðja gamla heimsveldisins var. Tvöþúsund ára gamlar rústir þar sem sjá má leifar sigurboga og minnismerkja sem keisararnir létu reisa til minja um stríðsafrek sín og landvinninga. Meðal annars eru rústir Senatsins þar sem öldungaráðið kom saman og hinn nafntogaði keisari Júlíus Cesar var veginn. Svo var haldið til Colosseum sem án efa er frægasta fornbygging í heimi enda tilkomumikil. Colosseum var byggð á aðeins 8 árum og var fullkláruð árið 80 eftir Krist. Útveggir Colosseum eru um 48 metra háir og leikvangurinn rúmaði 55.000 áhorfendur. Keisararnir notuðu leikvanginn til að skemmta almúganum og auka vinsældir sínar þannig. Skemmtanir þar gátu staðið í marga daga og byrjuðu oft á gamansýningum eða sýningum á framandi dýrum og enduðu á blóðugum bardögum skylmingarþræla, gladiatora, við hættuleg dýr eða hvorir við aðra. Ekki þarf að taka fram að kórinn söng við hvert tækifæri sem gafst eða a.m.k. í hvert sinn sem við fundum tröppur en eftirminnilegast verður eflaust í minningunni þegar við sungum í Colosseum. Við náðum að stoppa alla umferð um leikvanginn á meðan við sungum. Söngurinn hljómaði stórkostlega og það var mögnuð tilfinning að syngja þarna í þessari fyrrum miðju alheimsins. Það var ekki fullt hús þ.e. 55.000 en allavega nokkur þúsund sem fengu að hlýða ókeypis á Karlakór Hreppamanna og okkur var vel fagnað. Okkur leið eins og sigursælum gladiatorum að söng loknum. Svo var farið heim á hótel og um kvöldið var fagnað eins og sönnum sigurvegurum sæmir.                                                                                 

Hratt líður stund þá gaman er. Allt í einu var kominn mánudagur, síðasti dagurinn í ferðinni. Ákveðið hafði verið að nota daginn til að skoða rústir af sumarhöll Hadríanusar keisara. Við sem búum í uppsveitum Árnessýslu höfum séð margan flottan sumarbústaðinn en engin fær staðist samanburð við sumarbústað Hadríanusar, Villa Adriana. Hann þurfti 150 hektara undir slotið. Sem er bara þokkalegasta bújörð á Íslandi. Ekki hafa verið grafnir upp nema tæpir 40 ha. Mikið hefur vald keisaranna verið og auður. Þeir þurftu víst alltaf að vera að toppa hvorn annan í því skyni að sýna vald sitt og mikilfengleika. Allir sem komu til Rómar áttu að falla í stafi þegar þeir börðu dýrðina þar augum og viðurkenna vald keisaranna. Það gerðum við allavega í Karlakór Hreppamanna.

Hér er hægt að skoða myndir úr ferðinni.

                                                                                                                            Þorleifur Jóhannesson 2. bassi