Listaverkabingóið tókst afar vel eins og vænta mátti, enda í öruggum höndum félaga Ásmundar Sverris sem er þrautreyndur stjórnandi. M.a. hefur hann þurft að stýra fundum bæjarstjórnar á Selfossi og í þá ormagryfju hætta sér ekki nema hugrökkustu menn, nema kannski Þingeyingar.

Margir mætir listamenn gáfu verk sín. Voru það bæði málverk af ýmsum stærðum og gerðum sem og skúlptúrar og nytjamunir. Allt afar fallegt og verðmætt. Til að slá á spennuna hjá taugatrekktum spilurunum var gert hlé og ungt tónlistafólk kom fram og söng og spilaði. Glæsileg frammistaða hjá þessu hæfileikaríka unga fólki.

Spennan í bingóinu var mikil allan tímann þar sem öll verkin voru jafneiguleg. Oftsinnis voru tveir eða fleiri sem hrópuðu „bingó!“ á sama tíma en þeir sem ekki hrepptu vinningin fóru ekki tómhentir af sviði því að þeir voru svo stálheppnir að fá disk Karlakórs Hreppamanna að gjöf. T.d. fékk formaður kórsins einn slíkann. Sumir voru svo heppnir að fá marga vinninga og getur svo farið að feðgarnir í Miðfelli Magnús og Gunnlaugur haldi málverkasýningu fljótlega þar sem þeir kepptust hvor við annan að segja bingó.

Hér má skoða myndir frá bingóinu.

Eftirfarandi listamenn og eigendur listaverka gáfu vinninga og eru þeim hér færðar bestu þakkir fyrir: 

– Jón Ingi Sigurmundsson, Selfossi

– Herborg Auðunsdóttir, Stokkseyri

– Elvar Guðni Þórðarson, Stokkseyri

– Þuríður Steinþórsdóttir, Laugarvatni

– Hallur Karl Hinriksson, Selfossi

– Ólafur Th. Ólafsson, Selfossi

– Grétar Hjaltason ( 2 myndir); Rúnar Hjaltason, kórfélagi, gaf myndirnar

– Katrín Ósk Þorgeirsdóttir, Stokkseyri

– Þórdís Þórðardóttir, Selfossi

– Sigurlín Grímsdóttir, Votumýri

– Sigurlína Kristinsdóttir, Reykholti

– Helga Magnúsdóttir, Bryðjuholti

– Sigríður Helga Olgeirsdóttir, Reykjavík

– Rafn Eiríksson, Höfn í Hornafirði; Stefán G. Arngrímsson, húsvörður gaf mynd.