Skipuð var „sérstök fjáröflunarnefnd“ til að afla fjár til Verdi/ Wagner verkefnis okkar og fyrirhugaðrar Ítalíuferðar næsta haust.

Í hana voru settir ofvirkustu félagarnir í kórnum. Þeir funduðu fljótlega og afraksturinn var langur listi með tillögum um fjáröflunarleiðir. Ef allar þær tillögur yrðu framkvæmdar þá færu allar helgar og meira til í þau verkefni. Margar frábærar tillögur komu fram á þessum lista og nokkrar hafa verið valdar úr til að framkvæma.

Sú fyrsta er hin bráðsnjalla hugmynd um „Þrettándagleði“. Kunnugir telja uppsafnaða dans- og útrásarþörf undirliggjandi á Suðurlandi sem vert væri að láta reyna á um áramótin. Í því skyni hafa þeir félagar í nefndinni, með Grím í Ásatúni, í fararbroddi ráðið vinsælustu ballhljómsveit landsins „Helga Björns og reiðmenn vindanna“   í verkefnið.

Ballið verður haldið í Félagsheimilinu á Flúðum föstudaginn 4. janúar. Aldurstakmark er 25 ára en það er svona meira til viðmiðunnar þannig að yngra fólki verður ekki meinaður aðgangur.

Eins og sjá má í  auglýsingunni sem hér fylgir fyrir ballið kemur meðal annars fram að hægt er að kaupa miða í forsölu fyrir þá sem ekki taka sjénsinn á að þurfa að norpa fyrir utan húsið.

Vildarvinir KKH eru að sjálfsögðu hvattir til að bregða undir sig betri dansfætinum og skella sér á ball og slá margar flugur í einu höggi; styðja kórinn í menningarviðleitni sinni, skemmta sér og ná af sér jólasteikinni!

                                                                                   Eru ekki allir í stuuuðiiiii!!!!

threttandaball 2013v