Uppúr klukkan sex um morgunin þann 21. apríl renndi rúta úr hlaði Félagsheimilisins á Flúðum, ferðinni var heitið á Heklumótið á Ísafirði. Heklumótið er mót norðlenskra karlakóra, haldið fjórða hvert ár. Karlakór Hreppamanna var boðið að koma þar fram sem fulltrúi sunnlenskra karlakóra sem var að sjálfsögðu mikill heiður. Rútan ók mannskapnum á Reykjavíkurflugvöll og vélin var komin í loftið klukkan 8:30. Það varð fljótlega ljóst að ekki voru allir vanir að fljúga innanlands og brá sumum í brún þegar

vélin skreið yfir himinhá vestfirsku fjöllin með tilheyrandi hristing og látum. Það gekk fremur fljótt yfir en ekki tók betra við þegar vélinni var dengt niður í fjörðinn og tók svo mjög krappa beygju yfir bæinn og á tímabili voru margir á því að flugstjórinn hefði í hyggju að lenda á fótboltavellinum og voru farnir að kalla fram i og láta vita að það væri flugvöllur hinumegin í firðinum. Svo virtist sem flugstjórinn hefði áttað sig á síðustu stundu að svo væri og náði að snúa vélinni og lenda klakklaust á flugvellinum. Farþegarnir voru nokkuð fölir og hljóðir sem stigu frá borði en náðu sér furðufljótt eftir nokkur tóbakskorn.

Þessi ferð var mikið tilhlökkunarefni og kórinn var vel æfður eftir fjölmarga tónleika vetrarins og nýafstaðna vortónleika. Karlakórinn Ernir á Ísafirði var mótshaldari og sá um allan undirbúning mótsins. Tónleikarnir byrjuðu klukkan tvö á laugardeginum á því að hver kór söng 4 -5 lög en kórarnir voru alls átta talsins, þá var gert hlé og sameinaður kór söng að því loknu.

dsc02362a


Ernirnir höfðu sent okkur allnokkur lög sem við áttum að æfa og svo syngja með þeim og öllum norðlensku kórunum sem sóttu mótið. Sameinaði kórinn taldi um 250 karla. Voru sungin nokkur lög eftir vestfirðinga s.s. Hornbjarg og Ísafjörður. Stór og flott lög svo og lag sem Jón Ásgeirsson tónskáld og Ísfirðingur færði Örnum að gjöf  „Norður við íshaf“.  Sum þessara laga voru nokkuð tyrfin en margir gáfu sig ekki að læra þau og það mátti heyra að undir morgun á sunnudeginum var harðasti hópurinn búin að ná þessum lögum að fullu. Betra seint en aldrei. Spurningin er hvort að íbúar Suðureyrar séu á sama máli því að á  Suðureyri við Súgandafjörð fengu Hreppamenn gistingu þar sem öll gisting var uppbókuð á Ísafirði.

Áður en haldið var á Suðureyri til að skoða gistirýmið þá þurftu menn að greiða fyrir matinn. Miðana afgreiddi sérlega hress og kát bóndakona frá Botni í Súgandafirði. Þegar kom að hinum landskunna Pétri Péturssyni lækni frá Akureyri að borga miðana kættist hún mjög og sagði að ef borðið, sem var í hökuhæð konunar, væri ekki fyrir myndi hún kyssa hann. Pétur sem greinilega vildi ekki fara á mis við þetta góða tilboð gekk nokkur skref til baka og tók tilhlaup og stökk uppá borðið með stút á munni og innheimti kossin meðan hann vó salt á borðbrúninni. Að því loknu rétti hann henni vísakortið og greiddi fyrir matinn. Einhver sem hafði fylgst með úr fjarska kom aðvífandi og rétti fram kortið sitt og spurði hvað kossinn kostaði.

Að tónleikunum loknum héldu Hreppamenn til Suðureyrar til að skipta um föt og leggja herbergisnúmerið á minnið. Nokkrum bjórflöskum síðar var haldið aftur á Ísafjörð til að fara á sameiginlega skemmtun kóranna. Óhætt er að segja að rífandi stemning hafi verið í rútunni. Kórunum var uppálagt að vera með skemmtiatriði og Skúli skemmtinefndarformaður telfdi fram tveimur sönghópum sem annarsvegar sungu um Egilsdósina hans Gylfa Þorkels og hinsvegar Binnavísur, tókust þessi atriði vel bæði tvö.

Þorsteins þáttr Loptsonar

„Þorsteinn hét  maðr ok var Loptson af ætt Haukhyltinga.  Þorsteinn var vænn maðr og fagur yfirlitum þó ekki væri  hann hár til hnésins, hvers manns hugljúfi og kátr mjök . Þorsteini þótti mjöður góður og brast gjarnan í söng er áhrifa hans gætti .“

Þannig hefði að öllum líkindum verið ritað um þennan kappa ef hann hefði verið uppi á söguöld. Steini er einn af traustustu félögum kórsins og mikill gleðigjafi.  Það var tvennt sem gerði stjórnarmönnum kórsins auðveldara um vik að halda utan um og finna kórinn á ferðalaginu  en það var annarsvegar hláturinn í Steina og svo mátti alltaf rekja neftóbakskornaslóðina og þannig finna út hvar kallarnir héldu sig.

Áðurnefnd bóndakona frá Botni í Súgandafirði hreyfst greinilega svo að Hreppamönnum eða græddi svo á þeim í kossasölunni að hún tók ekki annað í mál en að kórinn kæmi við hjá henni á leiðinni út á völl. Það vafðist ekkert fyrir henni að taka á móti 50 körlum í fjósinu því að hún var með róbota  sem mjólkaði fyrir hana. Meðan róbotinn mjólkaði hafði hún bakað og smurt og þær kræsingar stóðu svo okkur til boða. Það var ljóst að margur bóndinn í hópnum öfundaði eiginmann hennar af þessari ötulu búkonu. Þegar hún hafði kvatt alla kallana með kossi og mjög þéttu faðmlagi þá hélt rútan af stað út á völl. Rútan var búin að aka dágóðan spöl þegar það uppgötvaðist að ekki var allt eins og það átti að vera en fljótlega áttuðu menn sig á því að Steina vantaði. Rútan nam staðar og skömmu síðar renndi fólksbíll með rjóðri heimasætu við stýri upp að henni og út stökk Steini hlægjandi. Hann harðneitar að tjá sig frekar um þennan atburð.

Kórfélagarnir gengu ókvíðnir um borð þar sem þeir höfðu gert ráðstafanir til að bægja honum frá með því að innbyrða nokkra bjóra á skömmum tíma. Þetta ráð svínvirkaði því að áður en menn vissu voru þeir komnir í rútuna og á leiðinni heim. Sumir áttuðu sig reyndar ekki fyrr en þeir voru komnir heim.

Nú bíður okkar Karlakórs Hreppamanna það verkefni að taka á móti Örnunum þann 5. maí  því að þeir munu sækja okkur heim og syngja með okkur á tónleikum í Félagsheimilinu þá um kvöldið. Vonandi verður ferðin þeim jafn ánægjuleg og okkur Ísafjarðarferðin.

Kærar þakkir Ernir!

Í myndasafni kórsins hér á síðunni má sjá nokkrar myndir af kóramótinu.

                                                                                                                                    Þorleifur Jóhannesson ritari