011-copy 

Heldur færðist  ró yfir hlutina hjá kórnum eftir þátttöku hans í vel heppnuðum Þrastartónleikunum en  það er ljóst að það verður ekki í langan tíma. Næsta verkefni  kórsins er Heklumótið á Ísafirði sem er sambærilegt mót og Kötlumótið sem haldið var á Flúðum í október 2010. Karlakórinn Ernir frá Ísafirði er mótshaldari í ár. Mótið  fyrir norðan verður haldið dagana 21.–22. apríl n.k. og er Karlakór Hreppamanna boðið að syngja þar sem gestakór.  Fyrir þá tónleika er nú æft stíft fullt af nýjum lögum sem allir kórarnir syngja saman.

Dagskráin fram á vor er einnig öll að skýrast.  Líkur eru á að Raddbandafélag Reykjavíkur muni syngja með okkur á vortónleikum þann 14. apríl. Þeir félagar eru Karlakór Hreppamanna að góðu kunnir þar sem þeir sungu við góðan orðstír á Kötlumótinu á Flúðum. Að líkindum verða einnig haldnir tónleikar í byrjun maí, nánar tiltekið laugardaginn 5. maí með tveimur öðrum karlakórum. Karlakórinn Ernir frá Ísafirði, mótshaldari Heklumótsins,  mun þá storma suður yfir heiðar og syngja með KKH en einnig hafa Víkingar frá Suðurnesjum boðað komu sína í uppsveitirnar og var því brugðið á það ráð að slá þessu upp í þriggja kóra tónleika í Félagsheimilinu að Flúðum þann 5. maí.

RÚV eða Rás 1 með Arndísi Björk Ásgeirsdóttur, dagskrárgerðarmann fremstan í flokki , hyggst gera þáttaröð um kórastarf úti á landi.  Hefur  hún í þeim tilgangi óskað eftir því að gera þátt um Karlakór Hreppamanna .  Fyrirhugað er að senda þessa þætti út næsta haust. Arndís Björk sem er frá Sandlækjarkoti í Gnúpverjahreppi er kórfélögum að góðu kunn þar sem hún var kynnir á Liszt-tónleikaröð kórsins á síðasta ári. 

Það eru því næg verkefni framundan hjá Karlakór Hreppamanna.