Vel heppnað Karlakvöld er nú að baki þar sem metþátttaka var. Annar bassi sá um allan undirbúning að þessu sinni og setti bæði leikþátt á svið og ýmis skemmtiatriði. Gísli Einarsson úr „Landanum“ var veislustjóri og er óhætt að segja að hann hafi staðið undir væntingum.
Að þessu sinni var feitt hrossaket í matinn með kartöflum og uppstúfi og meira að segja var grænmeti með, bæði grænar ora-baunir og rauðkál. Var öllu þessu gerð svo góð skil að varla var nægur afgangur til fyrir bassana og lá við stympingum um síðustu bitana. Er áætlað að milli 500 – 600 gr. hafi farið ofaní hvern gest af kjöti. Þessi samkoma er jafnan mikið tilhlökkunarefni fyrir kórfélaga jafnt sem gesti en líka ein mikilvægasta fjáröflunarleið kórsins.