Sæluvika í Skagafirði.
Loksins lét Karlakórinn Heimir verða að því að bjóða Karlakór Hreppamanna til sín á Sæluvikutónleika í Miðgarði í Skagafirði. Til að undirbúa sig gáfu þeir út fjórar plötur og hafa sungið með flestum öðrum karlakórum sem eitthvað kveður að. Nú síðast í vetur nokkra tónleika með Karlakór Reykjavíkur svo að það má segja að þeir hafi verið allvel undirbúnir. Fyrirvarinn sem við höfðum var ekki alveg jafnlangur.
Sæluvikan stóð dagana 25. – 2. maí og endaði sem fyrr segir með stórtónleikum í Miðgarði í Varmahlíð. Auk Karlakóranna Heimis og Hreppamanna komu þar fram Rökkurkórinn sem er blandaður kór úr Skagafirðinum svo og Söngsveit Hveragerðis.
Edit ákvað að láta kórinn flytja nokkrar perlur úr safni Sigurðar Ágústssonar sem kórinn hafði æft vel og lengi. Þá þurftum við ekki að læra neina nýja texta sem reynist æ erfiðara eftir því sem kórinn eldist. Helst hefur gengið vel að læra svokallaða „con bocca chiusa“ texta.
Mikil tilhlökkun var í kórfélögum til þessara tónleika og þátttaka góð. Stjórn kórsins skipulagði ferðina í þaula svo að mönnum gafst vart tími til að fara á salerni í ferðinni. Var það talið nauðsynlegt til að mönnum leiddist ekki og færu jafnvel að halla sér að dósinni eins og sagt er. Var svo lagt í hann frá Flúðum um hádegisbil föstudaginn 30. apríl í einni rútu en hluti kórsins fór á einkabílum. Þegar í Varmahlíð var komið voru kórfélögum og mökum deilt niður á bústaði sem eru í nágrennni Miðgarðs. Voru það tvær þyrpingar bústaða með sameiginlegum stórum heitum potti sem margir nýttu sér oftsinnis. Eftir að menn höfu matast um kvöldið voru sumir ekkert endilega á því að fara að sofa strax svo að margir tóku sig til og æfðu nokkur lög. Eins og fyrr segir var mikill hugur í mönnum að standa sig nú daginn eftir á tónleikunum því frést hafði að Heimismenn væru í stífu æfingaprógrammi og létu jafnvel mjaltir lönd og leið svo mikil væri alvaran í þessu hjá þeim. Um kvöldið mátti víða heyra menn æfa sig, í bústöðum, úti í mýrinni og í heitu pottunum. Var til þess tekið hvað t.d. „Kata fór í Keflavík“ hljómaði vel í skagfirsku vornóttinni.
Þrátt fyrir allar æfingarnar á föstudagskvöldið voru menn klárir klukkan ellefu daginn eftir og mættir í rúturnar sem fluttu allt liðið „yfir um“ að Hólum í Hjaltadal undir leiðsögn heimamanna. Þegar að Hólum var komið tók á móti okkur sjálfur vígslubiskup, Jón Aðalsteinn Baldvinsson, fór hann með okkur í Hólakirkju og sagði sögu kirkjunnar á lifandi hátt. Fræddi hann okkur um Hólabríkina, þá nafna sína Jón Ögmundsson og Arason og annað forvitnilegt. Því næst var farið í Auðunarstofu sem byggð var samkvæmt skriflegum heimildum af hinni upphaflegu Auðunarstofu sem Auðunn rauði Þorbergsson lét reisa árið 1315 og stóð í 500 ár. Smiðirnir sem reistu Auðunarstofu hina nýrri notuðust eingöngu við samskonar verkfæri og notuð voru við smíði hinnar fyrri stofu.
Eftir alla þessa uppfræðslu var farið í mat i Hólaskóla og menn gæddu sér þar á Hvannasúpu og nýrri Hólableikju. Um Hólableikjuna og Hesthúsin á Hólum fræddi okkur Ólafur nokkur Sigurgeirsson frá Grund í Hrunamannahreppi bóndi á Kálfstöðum og kennari á Hólum og þar að auki félagi í Karlakórnum Heimi.
Þegar hér var komið við sögu var kominn tími á æfingu hjá karlakórnum sem var haldin í Hólakirkju. Á meðan fóru konurnar á Sauðárkrók í svokallað Maddömukot þar sem nokkrir starfsmenn úr grunnskólanum höfðu komið upp handverkshúsi og voru þar margvíslegar vörur og veitingar í boði. Komu konurnar þaðan bæði mettar á sál og líkama.
Að lokinni æfingu héldu karlarnir af stað út á Krók í rútunum og voru fræddir á leiðinni um Flugumýrarbrennu, áður höfum við farið á þær slóðir sem Örlygstaðabardagi átti að hafa gerst. Það var því orðið ljóst að töluverðar væringar höfðu átt sér stað á þessum slóðum og ófriðarseggir leyndust víða í Skagafirðinum svo að margir töluðu um það í hálfum hljóðum að best væri að vera ekkert að espa þá upp á ballinu seinna um kvöldið.
Einnig flutu með nokkrar skemmtisögur af samtímamönnum frekar friðsömum flestum. Á Króknum var skoðað fyrirmyndar sorpflokkunarstöð og rausnarlegar veitingar voru í boði eigendanna. Þá var kominn tími á að halda heim í bústaðina því að kl. 17:30 áttum við að mæta í mat í Miðgarði í boði Heimismanna. Að þeirri veislu lokinni fóru menn að gera sig klára í sönginn sem átti að hefjast kl. 20:30. Karlakórarnir æfðu saman sameiginlegu lögin og svo allir kórarnir tvö lög sem syngja átti um kvöldið.
Allar æfingarnar kvöldið áður skiluðu greinilega árangri því að menn mættu vel stemmdir til leiks, sumir voru ekki alveg klárir á prógramminu og héldu að „Kristján í Stekkholti“ og „Binnavísur“ væru á dagskrá en það var snarlega leiðrétt.
Fyrir hlé sungu blönduðu kórarnir og skiluð sínu með sóma og uppskáru mikið klapp. Var ánægjulegt að sjá að á dagskrá kóranna voru þrjú lög eftir Loft S. Loftsson frá Breiðási. Efti hlé sté Karlakórinn Heimir á svið, milli 60 – 70 karlar, sjálfsöruggir eins og vinsælar poppstjörnur. Þeir voru með gríðarlega flott prógramm, vel æft, létt og skemmtilegt. Sér í lagi hljómaði „Finlandia“ eftir Sibelius glæsilega. Á meðan Heimismenn létu móðan mása stóðu Hreppamenn klárir og gerðu léttar slökunaræfingar, nokkrir tóku armbeyjur aðrir fóru með bænirnar sínar. Það var nákvæmlega eins og þegar Manchester United eða kannski frekar Hull eða Grimsby United fara út á völlinn fyrir mikilvægan knattspyrnuleik, allir tilbúnir að gefa allt sem þeir áttu í leikinn.
Stundin var runnin upp, kórinn gekk rösklega og fumlaust á sviðið og örfáum sekúndum seinna hljómaði „Árnesþing“ kröftulega og ákveðið, kannski í fyrsta sinn í Miðgarði. Síðan kom „Sveitin mín“, „Mansöngur“ og að lokum „Suðurnesjamenn“ sem vakti gríðarlega hrifningu meðal áhorfenda. Greinilegt var að Skagfirðingar höfðu ekki heyrt þessa útsetningu Sigurðar Ágústssonar á þessu ljóði Ólínu Andrésdóttur og hrifust bæði af útsetningunni og flutningnum og ekki var píanóleikur Miklósar til að draga úr áhrifunum. Að lokum fluttu kórarnir nokkur sameiginleg lög og var þá allþröngt á sviðinu því að þar munu hafa verið u.þ.b. 170 manns þegar allir kórarnir voru þar samankomnir í einu.
Það var létt yfir mannskapnum sem rölti uppí bústaðina til að gera sig klára fyrir dansleikinn sem átti að vera um köldið. Geirmundur Valtýsson og hljómsveit sáu um fjörið og klikkuðu ekki á því frekar en fyrridaginn. Skemmst er frá því að segja að menn skemmtu sér hið besta og neituðu að yfirgefa húsið fyrr en Geirmundur væri farinn heim til sín og háttaður. Flestir rötuðu í sína bústaði eftir ballið þó nokkrir hafi villst á rúmum sem er skiljanlegt þar sem þau voru öll svo áþekk.
Sem sagt vel heppnuð og afar skemmtileg ferð í Skagafjörðinn. Við Hreppamenn erum að sjálfsögðu afar þakklátir þeim Heimismönnum fyrir boðið og munum kappkosta að endurgjalda greiðann svo fljótt sem auðið er. Það hefur verið rætt innan stjórnar að setja þeim Birtingaholtsmönnum það verkefni að gefa Heimismönnum öllum jólagjafir í ár þar sem þeir stóðu sig svo vel í þeim efnum í reiðtúrnum síðasta.
Síðast og ekki síst þökkum við okkar ástsæla stjórnanda fyrir veturinn.
Þorleifur Jóhannesson 2. bassi