Af blönduðum karlakórum og öðrum.

Þá er skemmtilegum söngvetri lokið og fjórtándu vortónleikar kórsins að baki. Kórinn tók endasprettinn með stæl og hélt flotta tónleika í Félagsheimilinu en einnig í Guðríðarkirkju í Grafarholti. Á prógramminu voru hvoru tveggja klassísk karlakórslög og melódísk kórverk eftir meistara Franz Liszt. Lögin eftir Liszt voru sýnishorn úr söngskrá næsta vetrar þar sem kórinn mun strax næsta haust byrja vetrarstarfið með tónleikaröð á Selfossi, í Reykjavík og á Akureyri.

Vortónleikarnir á Flúðum tókust afar vel að okkar mati og ekki skemmdi hin glæsilega og efnilega söngkona Halla Dröfn Jónsdóttir fyrir skemmtuninni. Söng hún m.a. skemmtilegar aríur úr „Kátu ekkjunni“ og sýndi um leið skemmtilega leikræna tilburði. Alveg ný staða kom reyndar upp í kórnum þegar Halla Dröfn óvænt kippti einum nýjasta kórfélaganum til sín og svifti honum í þokkafullan vals á sviðinu. Það sem kom mönnum á óvart var að hún gat valið úr söngmönnum í fremstu röð, í tvöfaldri merkingu þess orðs, en valdi þennan piltung þegar í boði voru kvennaljómar eins og Sigmundur, Loftur Snæfells og að ótöldum Magga á Kjóastöðum. Hefur þessi uppákoma valdið sumum nokkrum heilabrotum.

Þann 30. apríl var svo haldið til Reykjavíkur til að syngja í Guðríðarkirkju í Grafarholti. Send var smá tilkynning í þáttinn Bergson og Blöndal og í þeirri von að ná athygli þeirra voru látnar fljóta með tvær limrur sem Gylfi Þorkels orti í hendingskasti.

Nú við skynsemi allt fer á skjön tal
svo skemmtileg, nærandi plön skal
gera sem flest!
Þá gagnast mun best
að hlusta á Bergson og Blön-dal.

Sönginn við bjóðum og bögur,
þar bætist við hrífandi fögur
Guðríðarkirkja!
Ef geðið vilt styrkja
þá komdu, í dag klukkan fjögur.

Ekki er langt síðan kirkja þessi var reist undir styrkri stjórn Árna Níelsar Lund sem var formaður byggingarnefndar. Kirkjuvörðurinn hafði orð á því að þetta væri eiginlega sérstök framsóknarkirkja. Framsóknarforkólfar færu þangað til að fremja allskonar kirkjulegar athafnir. Enda var Sigurður Ingi í alveg sérstöku stuði þennan dag og sparaði hvergi við sig hvorki í söng eða kynningum á lögum. Þurfti ekki nema einu sinni að áminna hann með bjölluhringingu að halda sig við fyrirfram ákveðna dagskrá.

Karlakór Hreppamanna söng sitt prógramm fyrir hlé og hljómaði söngurinn afar vel í þessu góða húsi. Eftir hlé sté á svið Drengjakór Hafnarfjarðar sem við kynntumst á Kötlumótinu sl. haust. Drengirnir voru fimmtán talsins plús ein kona, að því er Agnar fullyrðir, en hann stóð mjög þétt við hana í samsöngnum. Ef satt er, þá er þarna komin fram ný tegund af karlakór þ.e. blandaður karlakór, enda víst til í mörgum útgáfum, ein er sú að þeir hafi verið mjög ungir þegar þeir byrjuðu en síðar þegar þeir uxu úr grasi og þeim fór að vaxa grön þá óx ekki grön á einum þeirra heldur ýmislegt annað. Enginn hafði þó það í sér að segja henni hið sanna í málinu og því sé hún þarna ennþá. Söngur þeirra var allavega skemmtilegur og brandararnir góðir sem fuku á milli laga.

Þessi staðreynd að til séu blandaðir karlakórar setur nokkurn ugg í brjóst margra og sjá menn þetta síðasta vígi karlmennskunnar í uppnámi. Kannski verða menn bara taka þessu með opnum hug og fagna þessari þróun. Má ekki alveg hugsa sér t.d. Áslaugu í Miðfelli í 2. bassa, Guggu í Ásatúni í 1. tenór, Stínu á Kjóastöðum í 1. bassa o.s.frv. Það er allavega ljóst að það myndi stórbæta ásýnd kórsins. Sumir telja að 1. tenór hefði sér í lagi þörf fyrir upplyftingu.

Kórinn hafði fengið gott tilboð um mat og gistingu hjá Ingólfi á Nordica og flestir kórfélagar þáðu það. Auk þess var hótelstjórinn svo rausnarlegur að bjóða öllum uppá fordrykk fyrir matinn. Allt fór þetta nú vel fram og skemmtinefndin stóð sig með prýði eins og vænta mátti. Fór nokkur tími í allskonar viðurkenningar eins og á Kötlumótinu og þegar því lauk höfðu flestir kórfélagar fengið viðurkenningu í einhverju formi. Tóku menn svo lagið inná milli atriða og skemmtu sér hið besta.

Að endingu fljóta hér tvær hvatningavísur ortar af Sigga á Hæli í hléinu í Guðríðarkirkju.

Tölum okkar tæra mál,
hrærum tónastrengi.
Bergjum tón úr tónaskál
teygum lengi lengi!

Tómur hugur tóm er skál,
tómt er allt þó „valla“.
Hefjum saman söngsins mál
er sumri fer að halla.

Gleðilegt sumar!

ÞJ