Síðustu tónleikar kórsins í tónleikaröðinni „Liszt í 200 ár“ voru haldnir í Selfosskirkju 2. nóvember fyrir fullu húsi. Þetta verkefni var afar skemmtilegt og krefjandi. Lögin sem kórinn flutti á tónleikunum höfðu ekki verið flutt áður hér á landi í það minnsta ekki með íslenskum textum. Heiðurinn af textagerðinni og þýðingunum á Gylfi Þorkelsson félagi í kórnum.
Lög Franz Liszt voru óvenjuleg á sínum tíma og skera sig úr jafnvel enn þann dag í dag fyrir það að laglínan er síbreytileg og þannig eins og rússibani fyrir áheyrendur að hlusta á því það var alltaf eitthvað óvænt framundan og spennandi. Lögin voru engu að síður melódístk og falleg en einnig kröftug og áhrifarík. Þau voru því ekki alltaf auðlærð fyrir kórinn en síuðust smásaman inní haus kórfélaga og nú vilja þeir bara fá meira Liszt- eyrnakonfekt.
Til að gera lífshlaupi Liszt sem best skil var sett upp veggspjalda sýning með myndum og frásögnum úr lífi meistarans. Skoðuðu gestir sýninguna fyrir tónleika og í hléinu. En mest fræðandi og skemmtilegust voru þó kynningar Arndísar Bjarkar Ásgeirsdóttur, dagskrárgerðarmanns á RÚV. Hún gerði lífi og tónsmíðum listamannsins góð skil á lifandi og skemmtilegan hátt milli atriða. Kunnum við kórfélagar henni miklar þakkir fyrir hennar framlag.
Liszt var afar fjölhæft tónskáld og kom víða við í þeim efnum, meðal annars var hann höfundur tónaljóðsins sem er sinfónískt form þar sem ljóð eða saga er sett í tóna. Kórinn var svo heppin að fá stórsöngvarann Ágúst Ólafsson, baritón, til að sjá um flutning á nokkrum einsöngslögum eftir Liszt sem hann skilaði að sjálfsögðu með glæsibrag við undirleik Miklósar Dalmay píanóleikara.
Miklós flutti nokkur einleikspíanóverk eftir Liszt sem eru ekki á allra færi þar sem Liszt var og er jafnvel enn talinn færasti píanóleikari sem fram hefur komið. Nema að Miklós sé nú búinn að slá honum við?
Unglingakór Selfosskirkju spilaði stóra rullu í þessari tónleikaskorpu kórsins og söng á öllum tónleikunum. Fluttu þau nokkur gullfalleg kórlög eftir Liszt og uppskáru mikið klapp fyrir, einnig sungu þau nokkur lög saman með nokkrum félögum úr kórnum.
Ónefndur er þó hlutur stjórnandandans Editar Molnár sem hefur af sinni einstöku elju og áhuga keyrt þetta verkefni áfram og hefur sá undirbúningur hjá henni staðið í nokkur ár. Við karlakórsfélagar erum að sjálfsögðu afar þakklátir og stoltir að hafa slíka fagmanneskju í liði okkar.
Að lokum vill Karlakór Hreppamanna koma á framfæri kæru þakklæti til allra sem sóttu tónleikana.