Ferðasaga
Karlakór Hreppamanna til Bilbao á Spáni
30. október – 2. nóvember 2008
Fimmtudaginn 30. október lögðu 26 karlakórsmeðlimir ásamt mökum af stað til Bilbao á Spáni. Þau hjón, Edit Molnár stjórnandi kórsins og Miklós Dalmay píanóleikara voru einnig með í för. Þessi rúmlega 50 manna hópur var smátt og smátt að tínast inn í flugvallabygginguna í Keflavík eftir hádegi þennan sólbjarta dag. Eins og venja er var fólk á röltinu um bygginguna, ýmist að skoða og/eða versla sitt lítið af hverju. Margir fengu sér að borða og oft mátti heyra hlátrasköll í hópnum því spenningur var í mannskapnum einsog oft er hjá okkur landanum þegar verið er að fara burt af klakanum. Um klukkan sex fór flugvélin í loftið. Rúmt var um fólkið í vélinni og létt yfir öllum. Það tekur um fjórar klukkustundir að fljúga til Bilbao og þegar þangað var komið tók Kristinn R. Ólafsson, leiðsögumaður ferðaskrifstofunnar Úrvals-Útsýnar á móti fólkinu. Hann vísaði okkur á rútur sem flutti hópinn að hótel
Husa Jardines de Albia, 4ra stjörnu hótel sem staðsett er í miðri borginni. Þegar fólk var búið að koma sér fyrir í herbergjum sínum fóru margir út að „skanna“ svæðið í kringum hótelið á meðan aðrir létu ferðaþreytuna líða úr sér uppá herbergi. Klukkan var orðin margt og ekki margir matsölustaðir opnir, þó mátti finna nokkra þar sem hægt var að kaupa samlokur eða annað léttmeti.
Föstudagsmorguninn 31. október rann upp sólarlaus en með mildu veðri. Fólk hafði frjálsar hendur um hvernig það vildi eyða deginum og kvöldinu og höfðu margir hug á að kíkja í verslanir, skoða borgina, mannlífið og/eða fara í hið stórbrotna Guggenheim listasafn. Hópurinn skiptist því niður í nokkra smærri hópa sem dreifðu sér um borgina. Bilbao er stærsta borgin í Baskalandi á Norður-Spáni og stendur við mynni árinnar Nervión við Biscayaflóa. Íbúar borgarinnar sjálfrar eru á bilinu 350-360.000 en á Stór-Bilbao svæðinu öllu býr rúmlega 1 milljón manns. Þar sem Pyrenaíafjöllum hallar niður að Biscayaflóa og báðum megin við þau, er land Baskanna. Það er fjöllótt en á milli eru fagrir og gróðurríkir dalir. Baskar eru þekktir fyrir sitt sérstaka tungumál sem tilheyrir ekki neinni tungumálaætt og er því hvorki rómanskt né indóevrópskt eins og flest tungumál sem töluð er nálægt Baskalandi.
Þegar líða tók á daginn fór að rigna. Margir leituðu skjóls inní verslunum eða kaffihúsum borgarinnar á meðan aðrir létu ekki bleytuna aftra sér við að skoða götulífið með regnhlífar á lofti eða báru virðulega hatta sér til skjóls og prýði eins og einn hópurinn hafði keypt sér. Fólk fór svo að snúa nefinu að hótelinu um fimm leytið til að hvílast aðeins áður en kvöld- og næturlífið yrði skoðað í borginni. Það eru fáir staðir í Bilbao sem taka við stórum hópum í mat svo það varð úr að hópurinn skipti sér niður í nokkra smærri hópa og hélt svo út á örkina í leit að góðum veitingastöðum. Þá voru flestir orðnir nokkuð kunnugir nágrenninu og höfðu jafnvel komið auga á góðan veitingastað fyrr um daginn. Sumir gengu lengra en aðrir í leit að veitingastað en allir fengu að lokum kjöt- eða fiskrétt með tilheyrandi meðlæti, forréttum og eftirréttum, svo ekki sé minnst á drykkjarföng við hæfi. Einhverjir höfðu á orði þegar á hótelið var komið aftur eftir viðkomu á hverfisbarnum að sennilega væri búið að ganga „fáeina“ kílómetrana þennan daginn. Það voru því nokkrir misþreyttir fætur sem lögðust til hvílu þetta kvöldið.
Á laugardagsmorguninn 1. nóvember var hópurinn mættur útí rútu um 10 leytið því nú var ætlunin að fara í skipulagða skoðunarferð um borgina með Kristni R. Ólafssyni. Við hefðum ekki getað verið heppnari með veðrið því nú skein sólin hátt á lofti og hitastig um 15 °C. Kristinn byrjaði á að fara með hópinn uppá hæð þar sem sást vel yfir borgina og einnig til hafs í norðri. Svo var haldið aftur niður hæðirnar og notið þess að horfa á útsýnið úr rútunni. Bílstjórinn ók síðan ferðalöngunum að torgi einu við ánna og þar steig mannskapurinn út í góða veðrið. Eins og áður segir liðast áin Nervion í gegnum borgina og tengja nokkrar brýr eldri og yngri borgarhlutana saman. Á einni brúnni var staldrað við og lagið tekið og höfðu margir sem leið áttu um ánægju af söngnum.
Nú var stefnan tekin fótgangandi inní gamla bæinn með Kristinn R. í broddi fylkingar. Bilbao var stofnuð árið 1300. Borgin naut velvildar margra valdamanna og varð fljótlega aðalhafnarborg Spánar. Einkenni gamla bæjarhlutans eru steinilögð öngstræti og á hverju götuhorni má finna bari, kaffi- og veitingahús sem bjóða uppá margvíslega smárétti sem kallaðar eru smætlur á íslensku. En það eru smábrauð (baguette) með einhverhverskonar skinku eða sjávarfangi. Hópurinn lét ekki sitt eftir liggja við að smakka og gerði þeim góð skil. Kristinn teymdi hópinn áfram um þröngar götur og fræddi okkur um sögu bæjarins. Í miklum vatnsveðrum hefur vatnsborð árinnar Nervión hækkað um fleiri metra og þá hafa orðið skemmdir í gamla bænum. Merki þess mátti víða sjá á byggingunum.
Við gengum inn á torg og þar var lagið tekið og það var gaman að verða fyrir svörum þegar heimamenn fóru að grennslast fyrir um hvaðan söngmennirnir væru og nefndu strax saltfiskinn okkar (bachalau) þegar þeir vissu að þarna voru Íslendingar á ferð. Þó nokkur hópur safnaðist saman fyrir framan kórinn og þakkaði fyrir með lófaklappi. Eftir skemmtilega skoðunarferð um miðbæinn steig hópurinn aftur uppí rútu og nú lá leiðin að Guggenheimsafninu þar sem þessari skipulagðri skoðunarferð lauk.
Bilbao var ein aðalmiðstöðva iðnaðar á Spáni en hefur undanfarna áratugi breyst úr grárri iðnaðarborg yfir í mekka nútímalistar. Árið 1997 urðu straumhvörf í borginni þegar Guggenheimsafnið var opnað. Í kjölfarið var gert stórátak í fegrun og annarri uppbyggingu. Guggenheim-nýlistasafnið er stór og silfurslegin bygging og hefur mikið aðdráttarafl til borgarinnar og svo sannarlega komið Bilbao á kortið. Á safninu er margt að skoða,hinar ýmsu myndlistarperlur gömlu meistaranna sem og mörg nýlistaverk sem vakti mismikla hrifningu innan hópsins. En það var samdóma álit allra sem að safnið sóttu að það hefði verið svo sannarlega þess virði. En nú mátti hópurinn fara að haska sér uppá hótel til að hlaða aðeins á batterín fyrir kvöldið því í vændum var sameiginlegur hátíðarkvöldverður.
Um klukkan 18:00 var fólk mætt prúðbúið upp í rútu sem keyrði okkur að öðru hóteli í borginni. Þar gat hópurinn verið útaf fyrir sig í rúmgóðum sal. Um leið og fólk var búið að koma sér fyrir á nokkrum hringlaga borðum var byrjað að bera fram matinn. Við fengum 5 rétta kvöldverð, allt frá bragðgóðum grænmetisrétti til framandi rétta sem erfitt var að efnagreina! Nautakjötssteikurnar voru yfirleitt góðar þarna í Baskalandi. En það vakti athygli okkar gestanna hversu þjónustulund starfsfólks hótelsins var óvenju MIKIL. Svo mikil var hún á köflum að stundum urðu gestir hreinlega að halda í diska og hnífapör svo það yrði ekki fjarlægt áður en búið var að klára viðkomandi rétt! Karlakórsmeðlimir sungu fyrir konurnar, nokkrar skemmtilegar uppákomur voru og fólk spjallaði saman.Veislugestir skiluðu sér svo á hótelið einn af öðrum þegar leið á nóttina.
Það var kærkomið hjá mörgum að geta sofið út sunnudaginn 2. nóvember. Margir voru líka mættir í morgunmat og tilbúnir að takast á við dagskrá dagsins en það var að fara í skoðunarferð til nágrannabæjarins San Sebastian. Þeir sem ekki höfðu pantað í ferðina ætluðu að hafa það náðugt þennan dag og skoða Bilbao betur. Nú voru veðurguðirnir okkur ekki hliðhollir því það rigndi heil ósköp.Um eittleytið var rúta mætt fyrir utan hótelið til að sækja þá sem ætluðu í skoðunarferðina. Einsog áður var Kristinn R. okkar maður og lá hann ekki á upplýsingum og fróðleik um Baskaland, sögu og menningu þeirra á leið okkar austur á bóginn. Það er um klukkustundar akstur frá Bilbo til San Sebastian, sem er fallegur strandbær. Þar sem ekki viðraði vel til gönguferðar fór rútan með hópinn uppá hæð rétt fyrir utan bæinn þar sem hægt var að sjá yfir. Kristinn R. fræddi okkur um vín- og matarmenningu íbúa San Sebastian og nágrenni þess. Síðan var farið niður í miðbæinn og þeir sem ekki voru með regnhlífar í farteskinu fjárfestu sér í þeim. „Vopnuð“regnhlífum gekk hópurinn um götur San Sebastian og ekki þreyttist Kristinn R. á að fræða mannskapinn.
Margir fundu sér svo notalegan matsölustað og borðuðu vel áður en stigið var uppí rútuna og núna var endastöðin flugvöllurinn. Áætlað flug heim var um klukkan 23:00.Þreyttir en ánægðir ferðalangar lentu svo á Keflavíkurflugvelli um klukkan tvö aðfaranótt mánudagsins 3. nóvember.
Það var bæði fróðlegt og skemmtilegt að heimsækja Bilbao og San Sebastian í Baskalandi á Spáni. Landið er fallegt, fólkið vinsamlegt og metnaður í gangi, bæði í bygginga- og matargerðarlist Baska. Héraðið á sér langa og mikla sögu.Ekki spillti fyrir að vera með skemmtilegum ferðafélögum sem gerðu ferðina ógleymanlega. Ég þakka kærlega fyrir góða daga í Baskalandi.
Hér er hægt að skoða myndir úr ferðinni.
Áslaug Bjarnadóttir