Æfingabúðir og Uppsalir

Ákveðið var að fara í æfingabúðir laugardaginn 15. janúar á Hvolsvöll til að starta kórnum rækilega á nýju ári.

Var boðið uppá rútuferð þangað sem margir þáðu. Fyrirhugað var að æfa á Hótel Hvolsvelli fram eftir degi og skreppa svo í heimsókn til okkar ástsæla, fyrrverandi sveitarstjóra, á sveitasetur hans að Uppsölum í Fljótshlíð. Ísólfur Gylfi hefur að sjálfsögðu skyldum að gegna í kórnum þó að hann sé nú kominn í hóp félaga í orlofi. Ísólfur er séður í viðskiptum og náði að lokka okkur á Sögusafnið áður en við komumst á Hótelið og áður en við vissum vorum við byrjaðir að syngja fyrir þátttakendur á ráðstefnu um sögutengda ferðaþjónustu. Meðal þátttakenda var ráðherra ferðamála Katrín Júlíusdóttir sem sumir fullyrtu að væri öskumálaráðherra. Söngurinn reyndist hin besta upphitun.

 dscn0801-copy

Var æft grimmt allan daginn með kaffihléum og voru einhverjir á því að halda vortónleikana mjög fljótlega meðan við myndum textana. Skruppum við svo til Uppsala til að lyfta okkur upp eftir æfingarnar. Brást sveitastjórinn knái ekki þar frekar en fyrridaginn og tók á móti hópnum, fimmtíu þyrstum körlum með slíkum rausnarskap að lengi mun í minnum haft. Ísólfur og Steinunn hin brosmilda eiginkona Ísólfs hafa hreiðrað þarna um sig í gömlu fjósi og sankað að sér allskyns dóti sem forvitnilegt var að skoða. Það var ljóst að menn voru ekki búnir að fá nóg af söng á æfingunni því að þar var sungið sem aldrei fyrr. Ísólfi var að lokum tilkynnt að kórinn kæmi fljótlega aftur til æfinga og myndi þá sennilega gista á Uppsölum. Var svo haldið í mat á Hótel Hvolsvöll.

Ekki margt minnistætt gerðist á heimleiðinni með rútunni en það sem enginn botnar í er að það tók ekki nema klukkustund að fara á Hvolsvöll en fjóra tíma að komast heim!? Athugandi væri að skipta við annað rútufyrirtæki?