img 5580-copy

Hið magnaða stef úr Völuspá „vasa sandur né sær“ hljómar enn í kolli okkar Hreppamanna og efalaust í hjá fleirum er komu að hlusta á Kötlukórinn mikla í Límtréshöllinni á laugardaginn var. Sexhundruð manna karlakór sem ekkert dró af sér hlýtur að vera þeim er þangað komu eftirminnilegur.                                                                                                                                                              

Nú þegar þessu mikla kóramóti er lokið, sennilega því stærsta sem haldið hefur verið, er okkur í Karlakór Hreppamanna efst í huga þakklæti til allra þeirra er gerðu þetta mögulegt. Stjórn Límtrés að lána okkur húsnæðið, Límtréshöllina, sveitastjórn að lána skólann, leikskólann og íþróttahúsið o.s.frv.   Allir sem leitað var til voru boðnir og búnir að greiða götu okkar í hvívetna.                                               

Mótið tókst í allastaði afarvel að okkur fannst og ekki annað að sjá en að söngmenn jafnt sem gestir hafi verið ánægðir. Þátttaka kóra var mjög góð, aðeins einn kór úr sambandinu komst ekki á mótið en tveir gestakórar voru hinsvegar með þ.e. Karlakór Akureyrar/Geysir og finnski kórinn Manifestum. Yfir sexhundruð söngmenn voru á pöllunum í samsöngnum og gestir vel á áttunda hundraðið.              

Karlakór Hreppamanna vill hér með koma á framfæri þakklæti til allra kóranna er sóttu okkur heim þennan dag og skemmtu sér með okkur sem og öllum gestum mótsins sem komu og hlýddu á sönginn.