karlakor01 2 copy

Formaður Skógræktarfélags Íslands fór þess á leit við formann kórsins á vormánuðum að við myndum syngja á Þingvöllum í tilefni 80. ára afmælis félagsins þann 29. ágúst. Það var auðsótt mál ef næðist í nægilega marga söngmenn þar sem formlegar æfingar væru ekki hafnar á þessum tíma. Gerð var liðskönnun með því að kalla á æfingu fimmtudaginn 26. ágúst, þá var ljóst að þetta gæti gengið og æfð upp nokkur lög sem við kunnum vel. Mættu menn allvel stemmdir og uppábúnir í Furulund á Þingvöllum þar sem formleg skógrækt hófst svo að segja á Íslandi, var þar samankominn allnokkur hópur fólks sem tengdist skógrækt á Íslandi. Var þaðan gengið í halarófu uppí Almannagjá þar sem formleg dagskrá hófst með ávarpsorðum séra Gunnþórs Ingasonar og Magnúsar Gunnarssonar formanns Skógræktarfélags Íslands. Kórinn söng á milli ávarpa ræðumanna, fyrst „Látum sönginn hvellan hljóma“ og síðasta lagið var „Þú álfu vorrar yngsta land“.

Það er skemmst frá því að segja að söngurinn tókst bara nokkuð vel þrátt fyrir óhagstætt veðurfar þar sem það skúraði á mannskapinn nánast allan tímann og ávörp og ljóðaflutningur teigðust nokkuð lengur en ráð var fyrir gert. Eftir sönginn var boðið uppá gott kaffi og meðlæti sem var þegið með þökkum. Voru sumir svo fegnir að fá heitt kaffi að þeir ræddu um að það hefði kannski verið rétt að færa Skógræktarfélaginu afmælisgjöf frá kórnum og kom strax með tillögu um að útbúa gjafabréf þar sem félagið fengi rollu að eigin vali frá einhverjum úr kórnum, nóg væri beitin á Þingvöllum. Málið er í nefnd.

En senn hefjast formlegar æfingar kórsins og gert er ráð fyrir að fyrsta æfingin verði þriðjudaginn 14. september kl. 20:30 . Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þess að allir mæti sem best frá fyrstu æfingu því að æfa þarf lög sem syngja á á hinu mikla Kötlumóti sem er framundan í október. Kötlunefnd hefur unnið mjög ötlullega undir stjórn Magnúsar í Birtingaholti í sumar og stefnir í met þátttöku og allt að 700 söngmenn!!