Vortónleikar Karlakórsins tókust í alla staði vel.
Sungið var í Selfosskirkju þriðjudagskvöldið 13. apríl fyrir fullu húsi og síðan á Flúðum laugardagskvöldið 17. apríl. Þar fylltu tónleikagestir félagsheimili okkar Hreppamanna og ekki var annað að heyra en að gestir skemmtu sér vel svo ekki sé talað um þegar einsöngvarinn steig á svið, stórtenórinn Jóhann Friðgeir. Söng hann nokkur lög með kórnum og einnig söng hann einn við undirleik Miklósar. Erum við karlakórsmenn afar ánægðir með að hafa fengið þennan frábæra einsöngvara til að syngja með okkur á þessum tónleikum.
Næsta verkefni kórsins, sem óhætt er að segja að við félagarnir séum orðnir nokkuð spenntir fyrir, er að þiggja boð Heimismanna og syngja með þeim í Miðgarði 1. maí í lok Sæluviku Skagfirðinga. Er það víst að við Sunnlendingar munum eiga skemmtilega helgi framundan.
Hér má sjá myndir frá tónleikunum í Selfosskirkju sem Guðjón Emilsson tók.