Sönghátíð Karlakórs Hreppamanna 20. febr. 2010, þar sem KKH bauð til sín tveimur kórum, kvennakórnum Freyjum úr Borgarfirði og Gömlum Fóstbræðrum úr Rvík. Fóstbræður gistu á Hótel Flúðum, en Freyjurnar fóru heim eftir kvöldið. Hátíðin hófst á því að öllum kórmeðlimum var boðið í súpu og brauð, að sjálfsögðu var það sveppasúpa með ekta Flúðasveppum.
Tónleikarnir hófust kl. 20:30 og Freyjurnar hófu sönginn og sungu undir stjórn
Zsuzsanna Budai. Síðan stigu Fóstbræður á svið og sungu undir stjórn Árna Harðarsonar. Þá var hlé og eftir það fóru KKH á svið og sungu undir stjórn Edit Molnár við pínaóleik Miklósar Dalmay. Þá bættust Fóstbræður á svið og kórarnir sungu saman 2 lög, Sefur sól hjá Ægi og Þú álfu vorrar. Í lokin bættust Freyjurnar í hópinn og allir kórarnir sungu saman Úr útsæ rísa. Eftir tónleikana var svo smá teiti fyrir kórana og maka, þar sem KKH bauð upp á samlokur, bjór og léttvín. Einnig kaffi, konfekt og smákökur. Kórarnir voru svo hver fyrir sig með smá skemmtiatriði. Nokkrir KKH félagar sungu Lofsöng til kvenna, texti eftir Hrein Þorkelsson á meðan aðrir kórfélagar færðu öllum konum, sem viðstaddar voru, rós í tilefni konudags daginn eftir.
Sami hópur söng líka lofsöng um rauða Egilsdós, texta Gylfa Þorkelssonar. Loftur söng lagið Ef ég væri ríkur með aðstoð Miklósar Dalmay. Ísólfur Gylfi spilaði á gítar undir almennum söng með aðstoð nokkurra vel valinna tenóra. Fóstbræður sungu til kvenna Fósturlandsins Freyja, Viðar Þorsteinsson fór með nokkrar gamanvísur kórfélaga þeirra. Freyjurnar fluttu gamanvísur eftir kórfélaga, þær lýstu því líka hvers þær kræfust af karlmönnum við visst aldursskeið. Ein Freyjan fékk til sín upp á svið nokkra karla og lét þá gera allskonar kúnstir eftir hennar forskrift. Þeir voru látnir standa á öðrum fæti með tunguna út úr sér og hendurnar upp í loftið og svo átti allt að hreyfast í takt. Kórarnir skiptust á fánum sínum og gáfu hver öðrum hljómdiska sína.
Allar konur er þarna voru fóru svið og sungu Táp og fjör og frískir menn. Skemmtun þessi stóð vel fram yfir miðnætti og ég held að það sé óhætt að segja að þetta kvöld hafi verið KKH og gestum þeirra til sóma.