Lokatónleikar Karlakórs Hreppamanna voru haldnir í Selfosskirkju laugardaginn, 9. maí sl. Á tónleikunum söng Egill Ólafsson með kórnum og Stefán I. Þórhallsson lék undir á slagverk, auk þess sem undirleikarinn, Miklós Dalmay, stóð sína vakt sem vera ber. Hér var um að ræða nánast sömu söngdagskrá og á Vortónleikunum að Flúðum í lok apríl. Fyrst söng kórinn nokkur falleg, hefðbundin íslensk sönglög en sneri sér svo m.a. að Lokakór úr Þrymskviðu Jóns Ásgeirssonar og Hermannakór úr Il Trovatore eftir Giuseppe Verdi. Þá flutti kórinn fjögur lög eftir Miklós Dalmay við ljóð Gylfa Þorkelssonar en einnig söng Egill Ólafsson einsöng í einu lagi eftir þá félaga. Egill söng svo nokkur fleiri lög af sinni alkunnu snilld og má líkja flutningi hans og kynningu milli laga við gjörning, þar sem hann náði einstöku sambandi við áheyrendur. Lokahnykkurinn á tónleikunum var sameiginlegur flutningur Egils og kórsins á nokkrum Stuðmannalaga. Mjög góð aðsókn var að tónleikunum og góður rómur gerður að flutningnum. Selfosskirkja var þéttsetin ánægðum tilheyrendum, enda kórinn í stuði. Að loknum tónleikum héldu svo kórfélagar ásamt mökum sínum á Rauða húsið á Eyrarbakka, þar sem tekið var hraustlega til veitinga og flutt óborganleg „heimasmíðuð“skemmtiatriði í bland.