Menningarhátíðin Vor í Árborg var haldin 21.-24. maí sl. Dagskrá hátíðarinnar var umfangsmikil og fjölbreytt, ótrúlegt framboð var af menningar- og listviðburðum í bland við skemmtanir hverskonar. Fimmtudaginn 21. maí tók Karlakór Hreppamanna þátt í dagskránni með flutningi laga og ljóða Selfyssinganna Miklósar Dalmay og Gylfa Þorkelssonar. Kórinn söng á myndlistarsýningu Jóns Inga Sigurmundssonar í Gallerý Gónhól á Eyrarbakka. Það var sérstakur heiður fyrir kórinn að syngja fyrir Jón Inga, þekktan tónlistarmann og kórstjórnanda til margra ára. Margt var um manninn á sýningu Jóns þegar kórinn söng, og atburðurinn allur hinn ánægjulegasti. Á „heimleiðinni“ kom kórinn við á sýningu áhugaljósmyndaklúbbsins Bliks við Austurveg 35-7 á Selfossi og söng þar fyrir gesti og gangandi. Þar með var kórinn kominn í sitt sumarfrí, þótt eflaust reki eitthvað á fjörurnar fram á haustið.