Það má segja að uppskeruhátíð hafi verið hjá Karlakór Hreppamanna s.l. laugardagskvöld 18. apríl. Þá voru vortóneikar kórsins. Edit Molnár stýrði sínum mönnum af öryggi og snilld af vanda. Ekki skemmdi fyrir hinn fimi píanóleikur Miklósar Dalmay en þau hjón hafa stjórnað kórnum frá upphafi en 11 ár eru frá því að kórinn var stofnaður. Fyrri hluti tónleikanna var hefðbundinn þar sem sungin voru lög m.a. eftir Sigurð Ágústsson, tónskáld í Birtingaholti, Rússnesk lög o.fl. Það færðist fjör í leikinn eftir hlé. Þá steig á stokk, Stuðmaðurinn Egill Ólafsson. Flutningur hans var frumlegur og skemmtilegur og ýmist söng hann einn eða með karlakórnum. Á efnisskránni voru m.a. lög eftir Miklós Dalmay við texta eftir kórfélagann Gylfa Þorkelsson. Þar kom einnig við sögu bráðfimur trymbillinn, Stefán Þórhallsson. Þá söng Egill Bandarísk söngleikjalög og síðan var endað með eldhressum Stuðmannalögum. Kynnir kvöldsins var Jóhannes Sigmundsson í Syðra Langholti. Formaður kórsins er Aðalsteinn Þorgeirsson bóndi á Hrafnkelsstöðum. Um 300 manns sóttu tónleikana. Tónleikarnir verða endurteknir í Selfosskirkju 9. maí n.k. kl. 17.00. Söngveislunum í uppsveitunum er ekki lokið þar sem Vörðukórinn mun halda tónleika í Félagaheimili Hrunamanna á Flúðum síðasta vetrardag þann 22. apríl n.k. kl. 20.30 og Uppsveitasystur munu halda sína tónleika ásamt fleiri kórum í Félagsheimili Hrunamanna á Flúðum 30. apríl n.k. kl. 20.30.