|
Nú á þessu vori fagnar Karlakór Hreppamanna sínu tíunda starfsári. Jafnframt vill svo til að einmitt nú eru liðin eitthundrað ár frá fæðingu Sigurðar Ágústssonar tónskálds og kórstjóra frá Birtingaholti. Sem dæmi um tengsl við tónistarmenningu fyrri ára var kórnum á sínum tíma valið nafn er kallast á við forna frægð Hreppakórsins, karlakórs sem Sigurður Ágústson stofnaði á þriðja áratug síðustu aldar og starfaði í aldarfjórðung. En svo sem kunnugt er hafa félagar í Karlakór Hreppamanna, frá upphafi komið víðar að úr Árnessýslu en aðeins úr hreppunum. Því þótti það vel við hæfi að þetta starfsár Karlakórs Hreppamanna yrði helgað minningu Sigurðar Ágústssonar hefur það verið gert með því að leggja mesta áherslu á að æfa og syngja lög eftir hann eða útsetningar hans á lögum annarra. Hafinn er vinna að útgáfu geisladisks með lögum hans. Einn hápunktur vetrarstarfsins var þó þátttaka í aldarminningarhátíð sem haldin var á Flúðum helgina 17. og 18. mars.
Eiríkur Jóhannsson
|