Vorið 1997

 

1997Það var haustið 1995 að tónlistarfólk ættað frá Ungverjalandi, þau Edit Molnár og eiginmaður hennar Miklós Dalmay ásamt þremur börnum fluttu í Hrunamannahrepp. Edit sérmenntaður kórstjóri og Miklós konsertpíanisti af bestu gerð. Þau höfðu ráðið sig á Skagaströnd veturinn áður (1994-1995) en hann reyndist sérlega snjóþungur og ákváðu þau því að færa sig um set. Edit sá auglýst, í Morgunblaðinu, eftir organista og kirkjukórsstjóra á Flúðum. Þetta var 100% staða, sem organisti, kórstjóri, kennari í grunnskóla og tónlistarskóla. Hún sótti um og var ráðin.

Það var svo í lok mars 1997, að lokinni kirkjukórsæfingu að nokkrir kórfélagar komu saman heima hjá Edit til að ræða möguleikann á að stofna karlakór. Eftir nokkrar bollaleggingar og rauðvínsglös var ákveðið að hafa samband við nokkra karla sem taldir voru þokkalega lagvissir og boða til fyrstu æfingar sem skyldi verða þann 1. apríl 1997. Margir töldu að um gabb væri að ræða en um tuttugu karlar mættu og fleiri bættust við á næstu æfingum.

Fyrsta æfing karlakórsins var haldin í tónlistarherbergi í Félagsheimili Hrunamanna. Eftir þessa fyrstu æfingu var ákveðið að æfa upp nokkur lög til að syngja á Sönghátíð Hrunamanna sem halda átti þann 8. maí. Æfingar voru á þriðjudagskvöldum frá klukkan níu til ellefu og æft einu sinni í viku.

Þó að starfsemin væri í mótun á þessum tíma leið ekki langur tími þar til sungið var opinberlega. Karlakórinn braut ísinn og flutti nokkur lög á Heilsuhælinu í Hveragerði 30. apríl 1997. Það voru kátir karlar sem héldu saman heim í rútu eftir sönginn þetta kvöld. Komið var við á Inghól á Selfossi og litið til botns í nokkrum ölkrúsum. Menn voru glaðir, reifir og stoltir yfir framlagi sínu til sönglistarinnar en ekki síður ánægðir með að vera í þessum hressilega félagsskap.

Rétt um viku síðar, nánar tiltekið fimmtudagskvöldið 8. maí tók karlakórinn svo þátt í Sönghátíð Hrunamanna. Það voru ekki styrk öll hnén sem héldu búkum uppi það kvöld, né heldur burðugar allar raddirnar sem rauluðu lögin. Þó fór ekki ver en svo að kórinn var klappaður upp og söng aftur lagið Í kvöldsins húmi.

Karlakórsmeðlimir voru 27, klæddir hvítum skyrtum og svörtum buxum:

1. tenór                                                                            1. bassi
Agnar Jóhannsson – Ísabakka                                            Aðalsteinn Þorgeirsson – Hrafnkelsstöðum
Ámundi Kristjánsson – Minna-Núpi                                      Eiríkur Ágústsson – Flúðum
Guðjón Bjarnar Gunnarsson – Flúðum                                  Eiríkur Jóhannsson – Hruna
Gunnar Kr. Eiríksson – Túnsbergi                                        Guðmundur Gils Einarsson – Auðsholti
Helgi Jóhannesson – Hvammi                                             Helgi Guðmundsson – Bjarkarhlíð
Stefán Jónsson – Hrepphólum                                             Hreinn Þorkelsson – Flúðum
Svanur Einarsson – Túnsbergi                                             Jón Stefánsson – Götu
                                                                                         Þorkell Þorkelsson – Sóleyjarbakka

2. tenór                                                                             2. bassi
Bjarni Valur Guðmundsson – Skipholti                                  Einar Logi Sigurgeirsson – Flúðum
Guðjón Birgisson – Melum                                                   Gunnlaugur Magnússon – Miðfelli
Magnús Víðir Guðmundsson – Flúðum                                 Magnús H. Sigurðsson – Birtingaholti
Páll Jóhannsson – Núpstúni                                                Sigurður Ágústsson – Birtingaholti
Þorvaldur Jónasson – Syðra-Seli                                         Skúli Guðmundsson – Birtingaholti
Þrándur Ingvarsson – Þrándarholti                                       Þorleifur Jóhannesson – Hverabakka II

Karlakórinn söng 5 lög:

Sá brúni (Lag: Bragi Sigurjónsson / Texti: Garðar Karlsson / Guðmundur Gils Einarsson)
Litla skáld (Lag: Gunnar Sigurgeirsson / Texti: Þorsteinn Erlingsson)
Sokkabandsvísur (Lag: Holger Wiehe / Texti: Þorsteinn Gíslason)
Ungversk þjóðlög:
                – Í kvöldsins húmi (Texti: Guðmundur Gils Einarsson)
                –Ámu þessa eigum (Texti: Guðmundur Gils Einarsson)

Píanóleikari á tónleikunum var Miklós Dalmay. Í þakklætisskyni var Edit færð táknræn gjöf, silfurslegin íslensk svipa og Miklósi íslenskt tóbakshorn smíðað af Blómkvist Helgasyni í Miðfelli. Kynnir á þessum tónleikum var Helgi Jóhannesson.

Fyrsta söngárið náði ekki heilum vetri, það hófst 1. apríl og lauk í maí. Á þeim tíma setti kórinn saman starfsstjórn sem var ekki formlega skipuð heldur var stjórnin byggð á frumkvæði þeirra sem voru til í að taka að sér verkefni vorsins. Það voru þeir Eiríkur Ágústsson, Gunnar Eiríksson, Einar Logi Sigurgeirsson og Þrándur Ingvarsson sem tóku það verkefni að sér.

Almenningssamkomur voru ekki fleiri á þessum vetri og söngmenn gengu til sinna sumarverka. Eiríkur Ágústsson var vakinn að morgni afmælisdags síns 30. júní með karlakórssöng í garðinum hjá sér. Þar höfðu nokkrir söngfélagar ákveðið að koma formanni kórsins á óvart í morgunsárið og freistuðu þess að ná honum í rúminu. Var uppátækinu tekið vel og sýndi það um leið hversu áhugasamir kórfélagarnir voru með þennan nýja félagsskap. Þessi nýji félagsskapur fékk ekki formlegt nafn á þessum stutta starfsvetri og gekk því oftast undir nafninu Karlakórinn.