Starfsárið hófst með æfingum fyrir stórtónleika sem halda átti laugardaginn 9. október á Stokkseyri. Tónleikarnir voru haldnir í Menningarverstöðinni Hólmaröst þar sem níu kórar tóku þátt. Kórarnir vor Karlakór Selfoss, Karlakór Kjalnesinga, Karlakór Keflavíkur, Karakórinn Þrestir, Karlakór Reykjavíkur, Karlakór Rangæinga, Lögreglukór Reykjavíkur, Karlakórinn Fóstbræður og síðast enn ekki síst Karlakór Hreppamanna. Kynnir samkomunnar var Valdimar Bragason og sameinuðu kórarnir allar raddir sínar í nokkrum lögum undir lok tónleika meðal annars með lagi Páls Ísólfssonar, Brennið þið vitar.
Karlakvöld 2. bassa var haldið í nóvember. Félagar í 2. bassa fengu til liðs við sig leikkonununna Helgu Brögu Jónsdóttur sem hélt körlunum föngnum um tíma auk þess sem kórinn söng fyrir gesti sína. Á boðstólnum voru m.a bjúgu og snafsar í forrétt og saltað hrossakjöt í aðalrétt. Þetta karlakvöld var frumraun á þessum fjáröflunarlið kórsins sem festi sig í sessi næstu árin. Í desember mánuði voru tónleikar í Aratungu með Söngfélagi Þorlákshafnar og Lúðrasveit Þorlákshafnar áður en haldin voru hátíðleg jól.
Fjáröflunarsamkoma var haldin á vegum 1. tenórs í Aratungu 2. apríl sem þeir kölluðu sviðaveislu. Framkvæmdin var að flestu leyti lík karlakvöldinu fyrr um haustið að því frátöldu að þarna voru konur einnig boðnar velkomnar. Þessi samkoma var liður í söfnunarátaki fyrir fyrirhugaða utanlandsferð sem áætluð var að hausti. Söfnunin gekk vel fyrir sig og Hákon Gunnlaugsson smiður gaf kórnum að auki 50 þúsund kr. til pallakaupa.
Karlakór Hreppamanna og sameinuðum kirkjukór úr uppsveitum Árnessýslu auk barnakórs af sömu slóðum, hlotnaðist sá heiður að syngja með hljóðfæraleik Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum sem haldnir voru í Íþróttahúsinu á Flúðum 22. apríl. Auk kóranna tveggja og sinfóníunnar lék Miklós Dalmay einleik. Lagið Suðurnesjamenn eftir Sigurð Ágústsson var sérstaklega útsett af Sinfóníuhljómsveit Íslands fyrir Karlakór Hreppamanna og hljómaði það afar vel. Hápunktur þessara tónleika var þó að margra dómi flutningur á kórfantasíu eftir Ludvik Van Beethoven þar sem saman kom kórsöngur, reyndar með þýskum texta, kafli fyrir stóra hljómsveit og síðast en ekki síst veglegur einleikskafli á píanó sem Miklos flutti með glæsibrag. Tónleikarnir þóttu takast afar vel og að þeim loknum buðu sóknanefndir Hrunaprestakalls og Hrunamannahreppur öllu söng og tónlistarfólki að þiggja léttar veitingar í félagsheimili Hrunamannahrepps. Þar gafst tækifæri til að spjalla saman og lyfta glasi áður en hver hélt til síns heima.
Sem dæmi um þann undirbúning og vinnu sem tónleikar af þessu tagi kosta má segja frá því að um hádegisbil á virkum degi voru rúmlega fimmtíu vinnandi karlar mættir á æfingu í Háskólabíói með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Samt er það álit flestra að þessi reynsla að fá að fylgjast með þessum stóra hópi atvinnutónlistarmanna hafi verið bæði eftirminnileg og lærdómsrík. Áður en lagt var af stað heim var komið við í félagsaðstöðu eldri borgara í Fossvogi og sungin nokkur lög fyrir heimilisfólk.
Karlakór Hreppamanna og Karlakórinn Fóstbræður héldu stórtónleika laugardaginn 19. mars. Tónleikarnir voru tveir þann daginn, annarsvegar í Selfosskirkju um daginn og í íþróttahúsinu á Flúðum um kvöldið. Kórarnir sungu sín tíu lög hver auk fjögurra laga sem þeir tóku saman. Báðir tónleikarnir voru vel sóttir og íþróttahúsið á Flúðum var fullt. Halldór Páll Halldórsson skólameistari á Laugarvatni var kynnir á tónleikunum og stóð sig vel að mati viðstaddra. Karlakór Hreppamanna stækkaði ört og taldi á þessu ári 55 söngmenn sem var framar björtustu vonum átta árum fyrr þegar hann var stofnaður.[1]