Söngárið 1997- 1998

Atburðir haustsins 1997 skiptu miklu fyrir framtíð kórsins. Kórfélögum fjölgaði og nýir söngmenn gengu til liðs við þá er fyrir voru í kórnum frá liðnum vetri og staðfestu um leið áhuga á kórastarfinu sem lá í lausu lofti frá því vorið áður. Gunnlaugur Magnússon gekk rösklega til verks sem fyrsti formaður kórsins og meðal annars var á þessu hausti ákveðið með nafngift. Í framhaldi af því fékk kórinn nafnið Karlakór Hreppamanna. Fyrir jólin var farið í skemmtiferð til Víkur í Mýrdal þar sem kórinn söng í Víkurkirkju ásamt sönghópnum Átta í lagi. Í Vík var farið á jólahlaðborð og skemmtu kórfélagar sér vel alla leiðina heim með rútunni. Nýja árið fór af stað með æfingardegi í Búrfelli 17. janúar. Á þessum æfingardegi var m.a. æft í fyrsta sinn lagið Sveitin mín eftir Sigurð Ágústsson en það lag hefur verið í hávegum haft og verið sungið við mörg tækifæri síðan.

1998Karlakórinn söng á söngskemmtun eldri borgara í Hveragerði 17. mars sem haldin var á Hótel Örk. Þessi söngskemmtun er kórmönnum sem þar sungu afar minnisstæð og hefur oft borið góma þegar litið er til baka á upphafsárin. Í marsmánuði var einnig komið við og sungið á skemmtikvöldi Kvenfélags Hrunamanna og á ferðamálaráðstefnu á Flúðum.

Vortónleikar karlakórsins voru haldnir í félagsheimilinu á Flúðum 4. apríl 1998. Auk kórsins lék kórstjórinn Edit Molnár einleik á píanó og gestakór samkomunnar var Karlakórinn Þrestir úr Hafnarfirði. Samkoman heppnaðist vel og var frumflutt lagið Ljúfir hljómar sem var samið af Miklós Dalmay píanóleikara kórsins með texta eftir Hrein Þorkelsson kórfélaga.[1]

Sönghópurinn Átta í lagi komu í heimsókn og sungu nokkur lög með kórnum á tónleikum sem haldnir voru í Árnesi 17. apríl. Perluvinir og nemendur í Tónlistarskóla Flúðaskóla spiluðu nokkur létt lög á tónleikum og heppnaðist þessi samkoma með ágætum. Sönghátíð Hrunamanna var 23. apríl þetta ár og komu þar fram Barnakór Flúðaskóla, Kirkjukór Hrunaprestakalls, Samkór Selfoss, Karlakór Hreppamanna auk samspils Unnar Maríu Ingólfsdóttir og Miklós Dalmay á fiðlu og píanó. Samkomu þessari var ætlað að styrkja kaup á nýjum flygli í félagsheimilinu sem átti eftir að efla tónlistarlífið enn frekar.

Kórinn söng á glæsilegum vortónleikum Karlakórs Selfoss sem haldnir voru laugardaginn 2. maí. Stuttu áður höfðu æfingarbúðir kóranna verið í sama húsnæði sem varð kveikjan að samstarfi og kunningsskap er átti eftir að haldast næstu árin. Vorferð var farin til Nesjavalla og til Viðeyjar 16. maí, án þess að skipulagður söngur væri þar að hálfu kórsins. Kórfélagar tóku maka með sér og skemmtu sér vel á þessum menningarslóðum. Sumarið tók við af vorinu og tók Karlakór Hreppamanna sér frí fram á haust til að sinna sumarverkum og safna kröftum fyrir komandi söngár.

 


[1] Morgunblaðið 9. apríl 1998, bls. 34.