Ákveðið var að byrja árið með trukki og fyrsta æfing kórsins var þriðjudaginn 15. janúar og strax á laugardeginum eftir haldinn æfingadagur. Æft var á Sólheimum í Grímsnesi þar sem aðstæður allar eru til fyrirmyndar. Byrjað var að æfa klukkan 11 um morguninn og um eittleytið var farið í súpu í mötuneytið. Karlarnir höfðu vara á sér í matnum minnugir þess sem gerðist síðast er við æfðum þar. En það var þannig að fyrir nokkrum árum æfði kórinn á sama stað og klukkan eitt kom að súpunni. Menn voru orðnir svangir og súpan sérlega góð. Fór svo að kokkurinn varð að kokka meiri súpu þar sem hún kláraðist jafnharðan úr pottunum. Þegar hægðist um og menn virtust hafa fengið nægju sína hölluðu þeir sér aftur í sætunum, saddir og sælir. Þá allt í einu birtist kokkurinn trillandi inn vagni sem fullur var af snitsel, brúnuðum kartöflum, grænum baunum og sósu. Edit náði varla almennilegum tóni úr köllunum það sem eftir lifði dagsins í það skiptið. Nú var bara súpa en hún var líka matarmikil og góð. Æft var til fjögur um daginn og síðan var vistmönnum og starfsfólki boðið að koma og hlýða á kórinn syngja. Var vel mætt og í lokin tóku vistmenn þátt í söngnum á sviðinu og höfðu greinilega gaman af. Nokkrar myndir fylgja hér af samkomunni og kunnugir þekkja kannski karlakórsmeðlimina úr ef þeir rýna vel í myndirnar.