Karlakórnum hefur borist margar góðar og skemmtilegar kveðjur eftir Kötlumótið sem við þökkum hér með kærlega fyrir. Hér eru nokkrar kveðjur í bundnu máli sem okkur langar að deila með ykkur.
Karlakórinn Stefnir:
Stefnisliðið ljómar enn,
lét þar vaða á súðum.
Heill sé ykkur, Hreppamenn,
höfðingjar á Flúðum.
(Höfundur: )
Drengjakór Hafnarfjarðar:
Þandir stríðu strengirnir
stafaði hætta að rúðum.
Dásama enn Drengirnir
daginn þann á Flúðum
(Höfundur: )
Karlakór Reykjavíkur:
Hreppamanna heimboðin
heill og vinskap binda.
Höfðingsskapur háborinn,
hreint til fyrirmynda.
(Höfundur: Grétar Hallur)
Karlakór Kópavogs:
Okkur körlum alúð mætti,
undirbúningsvinna af dug.
Í öllum viðurgjörning gætti,
glæsileik af stórum hug.
Samkennd okkur karla kætti
á Kötlumóti sei, sei, sei,
meira segja af gleði grætti,
gumar þó að gráti ei.
Hrepptum við í happadrætti
hreppamanna umsjón hér.
Umhverfið svo okkur bætti
yndislegt á Flúðum er.
(Höfundur: Magnús Steinarsson)
Karlakór Rangæinga:
Við fórum svo fínir í framan
á Flúðir til að syngja þar saman
og að standa á pöllum
með sexhundruð köllum
var aldeilis sérlega gaman.
(Höfundur: )
Karlakórinn Fóstbræður:
Englaraddir, allar tærar,
eins og dæmin sanna,
senda frá sér kveðjur kærar
til Karlakórs Hreppamanna.
(Höfundur: SH)
Karlakórinn Jökull:
Eins og söngmenn allra landa
áttum við þar gleði hót.
Suður yfir ár og sanda
sóttum við á Kötlumót.
Þarna voru þandar raddir
þegin beini hjá gestgjafa.
Eflaust urðu allir saddir
engan hrepptum við harðskafa.
Dveljum nú í dagsins önnum
drengir líta öldurótið.
Héðan við sendum Hreppamönnum
hjartans þakkir fyrir mótið.
(Höfundur: Þórarinn Pálmason)