Í gærkvöld, 21. október 2025, var haldinn aðalfundur kórsins, við ágæta mætingu kórfélaga. Létt var yfir mönnum og fundurinn fór vel fram, undir traustri stjórn Alla á Hrafnkelsstöðum.

Helstu tíðindi eru þau að Loftur S. Magnússon var endurkjörinn formaður með lófataki, og Bjarni Arnar Hjaltason og Úlfhéðinn Sigurmundsson gengu nú úr stjórn, eftir áralanga setu. Úlfhéðinn hefur verið ritari stjórnar, eiginlega lengur en elstu menn muna (þeim er þó farið að förlast minnið), og Bjarni lýkur nú ferli sínum sem formaður og varaformaður helftina af síðasta áratug. Í stað þeirra koma inn í stórn, báðir úr varastjórn, þeir Egill Jónasson og Sigurður Snær Sveinsson.

Stjórnina skipa því næsta starfsár: Loftur formaður, Páll Kristján Svansson, 2. bassi, Gylfi Þorkelsson, 1. bassi, Egill, 2. tenór, og Sigurður, 1. tenór. Í varastjórn voru endurkjörnir þeir Bjarni Hjörleifsson fyrir 2. tenór og Hjalti Gunnarsson, 2. bassi, og nýir koma inn Helgi Ingimarsson, 1. tenór, og Erlingur Bjarnason, 1. bassi.

Einnig var skipað í hinar fjölmörgu nefndir sem starfa innan kórsins, en stjórn hefur alræðisvald um þá skipan og reynir að haga því svo til að sem flestir séu virkir í einhverri nefnd en sem fæstir í mörgum. Nefndaskipanina má sjá hér á síðunni, undir „Um kórinn / Stjórn og nefndir“, sjá hér: https://kkh.is/stjorn-og-nefndir/

Þó ber að geta sérstaklega þeirra nýmæla að sett var á laggirnar ný nefnd, Afmælisnefnd, en eins og einhverjir glöggir gætu vitað var kórinn stofnaður 1. apríl 1997 og styttist því óðum í þrítugsafmælið. Afmælisnefndina skipa engir amlóðar, þar er hver höfðinginn upp af öðrum, allir fyrrverandi formenn kórsins, í þessari röð: Eiríkur Ágústsson, Gunnlaugur Magnússon, Brynjar Sigurgeir Sigurðsson, Aðalsteinn Þorgeirsson, Helgi Már Gunnarsson, Hjalti Gunnarsson og Bjarni Arnar Hjaltason. Er því engum blöðum um það að fletta að afmælisins verður fagnað með eftirminnilegum hætti.

Annað sem vakti athygli var yfirferð gjaldkerans, Palla Svans, á reikningum. Helstu lykiltölur eru þessar: Tekjur = 20.882,229,- / Gjöld = 16.898.560,- / Eignir = 6.356.310,- / Eigið fé=6.356.310. Ekki er þó allt sem sýnist, því hluti af tekjum frá fyrra ári er bókfærður á nýliðnu reikningsári, sem verið var að gera upp, og því ekki um það að ræða að kórinn safni gjaldeyrisforða, enda ekki markmiðið að sitja á digrum sjóðum, heldur að nýta tekjur jafnóðum til tónleikahalds og menningarstarfs ýmiskonar.

Í máli gjaldkerans komu einnig fram þær gleðilegu fréttir að hann hefur þegar samið við bæði kórstjórann, Atla Guðlaugsson, og píanistann, Sigurð Helga, um samstarf næsta starfsár.

Í skýrslu formanns var farið yfir helstu viðburði sem kórinn stóð fyrir og tók þátt í. Þar bar hæst samstarf við Sprettskórinn um söng- og skemmtiferð á Íslendingaslóðir í USA og Kanada. Einnig var auðvitað hinna hefðbundnu viðburða getið, svo sem Karlakvölds að hausti og vortónleika, sem að þessu sinni voru haldnir í Guðríðarkirkju, Hveragerðiskirkju og Félagsheimili Hrunamanna. Af öðrum viðburðum má nefna þátttöku í kóramóti í Kópavogi á haustdögum og tónleika í Skálholtsdómkirkju þann 26. júlí, en formaður hafði lagt til af rausn sinni að allur aðgangseyrir rynni í flygilsjóð kirkjunnar. Og svo vitnað sé beint í skýrsluna: „Öllum að óvörum í veðurblíðunni, var Skálholtskirkja nánast fullsetin af tónleikagestum. Segi og skrifa, að í flygilsjóðinn söfnuðust u.þ.b. 450þús. krónur.“

Og nú státar Skálholtsdómkirkja af forláta Steinway-flygli, ættuðum úr Salnum í Kópavogi.

Að lokum er rétt að geta þess úr skýrslu formanns, eins og fram hefur komið í frétt hér á síðunni, að Hrunamannahreppur og Karlakór Hreppamanna skrifuðu nýverið undir styrktar- og samstarfssamning til eflingar menningu í sveitarfélaginu.

Undir liðnum Önnur mál var m.a. flutt skýrsla ferðanefndar, rætt um leiðir til nýliðunar í kórnum, mikilvægi söngskrárinnar var ítrekað, fluttar þakkir til fráhverfandi stjórnarmanna og heillaóskir til nýrra, og formanni og stjórn þakkað fyrir gott starf liðið starfsár.

Endaði fundurinn því á afar jákvæðum nótum og kórfélagar héldu til síns heima fullir eldmóðs og tilhlökkunar mót komandi starfsári.