Á morgun, 16. september, hefjast æfingar kórsins aftur, eftir óvenju stutt haustfrí, en eins og lesendur síðunnar vita og muna eru söngmenn „rétt nýkomnir“ heim úr ævintýraferð vestur um haf, til Bandaríkjanna og Kanada á slóðir Vestur-Íslendinga, og fjallað hefur verið allítarleaga um hér.

Starfsárið 2025-2026 verður, venju samkvæmt, viðburðaríkt og skemmtilegt. Hefðbundnir liðir verða á sínum stað: karlakvöld í nóvember og vortónleikar í apríl. Einnig verða á dagskránni kóramót, hagyrðingakvöld, „jólaeitthvað“, æfingahelgar og vorferð, svo einhver dæmi séu dregin fram, en stjórn og söngstjóri vinna að því af metnaði að setja saman spennandi dagskrá, sem verður auðvitað kynnt með pompi og prakt í fyllingu tímans.

Að venju eru nýir söngmenn boðnir hjartanlega velkomnir, og það má alveg láta það berast um sveitir að fár, ef nokkur, félagsskapur er skemmtilegri og meira andlega gefandi en Karlakór Hreppamanna.

Æfingar eru haldnar í Félagsheimili Hrunamanna að Flúðum alla þriðjudaga kl. 20:00.