Í gær, sunnudaginn 27. júli var lokahnykkurinn í undirbúningi karlakóranna í Hreppum og Spretti fyrir „Vesturferðina miklu“, sem hefst nk. miðvikudag, og fjallað hefur verið um hér á síðunni. Kórarnir sungu fyrst í morgunmessu hjá séra Kristjáni í Skálholtskirkju, en eftir hádegi var létt æfing fyrir tónleika sem hófust kl. 16.00.

Skemmst er að segja frá því að allt gekk snuðrulaust. Reitingur mætti til messu og síðdegis var kirkjan þéttsetin við tónleikana og undirtektir glimrandi, einhver myndi segja „alveg rífandi“. Það var kórmeðlimum sérstakt ánægjuefni að geta með þessum hætti styrkt flygilsjóð kirkjunnar, og alla vega gat Sigurður Helgi vart hamið sig; var í feikna stuði á nýja flyglinum.

Kórarnir þakka staðarhöldurum í Skálholti kærlega fyrir góðar móttökur, og tónleikagestum fyrir komuna.

Þá ber að geta þess að á æfingunni fyrir tónleika nældi Gunnlaugur Magnússon, regluvörður KKH, gullmerki Karlakórs Hreppamanna í félaga Snorra Jóhannesson, en Snorri var vant við látinn á vortónleikunum þegar önnur heiðursmerki voru afhent. Gullmerki eru veitt þeim sem starfað hafa í kórnum í 20 ár.

Næstu fréttir verða af ævintýrum vestan hafs.