Guðmundur Óli, stjórnandi okkar Karlakórs Hreppamanna tók þá djörfu ákvörðun að fara með okkur í söngferð norður í Skagafjörð og á sínar heimaslóðir á Dalvík dagana 9.-11. nóv. Hann taldi okkur greinilega reiðubúna að „performera“ í Miðgarði í Varmahlíð og þar er ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur því við höfðum verið varaðir við að þar mætti enginn á karlakórstónleika nema hjá Karlakórnum Heimi, enda bækistöðvar þeirra þar.
Við fórum eftirminnilega ferð í Skagafjörðinn árið 2010 í boði Heimis til að syngja þar á Sæluviku með þeim ásamt fleiri kórum. Þá var að sjálfsögðu troðfullt hús og mikil stemning, ball á eftir með Geirmundi o.s.frv. Það kom okkur því skemmtilega á óvart að það var bara fín mæting á tónleikana um kvöldið. Nokkrir töldu hausana í salnum og var fjöldinn ýmist 100 eða 101, spurningin var hvort húsvörðurinn gæti talist með eða ekki. Við sungum prógrammið frá því í vor sem voru lög úr íslenskum kvikmyndum. Kristjana Stefánsdóttir söng með kórnum og hljóðfæraleikarar voru sem áður þeir Vignir Þór Stefánsson á píanó, Erik Qvick á trommur og Jón Rafnsson á bassa. Allt þekktir snillingar og hugsanlega trekktu þeir bara svona hressilega að. Tónleikarnir heppnuðust afar vel og var gaman að lesa viðbrögðin úr andlitum áhorfenda, sem ýmist hlógu eða jafnvel táruðust þegar Kristjana söng „Önnur sjónarmið“ eftir Hilmar Oddsson.

Svo var haldið á Dalvík. Þar var áformað að syngja klukkan 5 um daginn. Var tekin létt æfing í Menningarhúsi þeirra Dalvíkinga sem er flott bygging og mikilvæg í samfélagi eins og Dalvík. Fórum við karlarnir svo á hótelið sem við gistum á og gerðum okkur klára fyrir tónleikana. Skemmst er frá því að segja að þeir tókust mjög vel, ágætis mæting var og ljóst að gestir skemmtu sér konunglega. Karlakór Dalvíkur, stundum nefndur Karlakórinn Kerling eftir fjalli einu í Svarfaðardal, söng með okkur tvö lög í lokin. Dalvíkingar þekkja Guðmund Óla vel þar sem hann stjórnaði kór þeirra í ein tólf ár. Þeir söknuðu greinilega Guðmundar Óla og minntust þess þegar þeir gerðu garðinn frægan m.a. með „Queen“ tónleikum. Við sögðum þeim að í bígerð væri að gera sambærilega hluti með Óla en þá værum við að horfa til þess að taka AC/DC eða Guns N´ Roses fyrir. Við uppgötvuðum meira að segja forsöngvara í verkefnið í ferðinni þar sem Bjarni Hjaltason sýndi að hann fór létt með að hlaupa í skarðið fyrir Kristjönu þegar hann söng „Hraustir menn“ með kontratenórrödd.
Eftir tóleikana var borðað, sumir fengu sér jafnvel einn bjór…eða tvo. Skemmtilegustu félagarnir úr Dalvíkurkórnum sungu svo með okkur fram á nótt eða þar til vertinn á Gísla, Eirík og Helga skellti í lás. Enda stórsá orðið á lagernum.   Morgunin eftir vöknuðu menn misupplagðir í ferðalag suður, sumir lítið sofnir og utan við sig jafnvel í „krummafót“ þegar þeir komu í morgunmat. Allir voru samt komnir í rútuna kl. 11 og tilbúnir í heimferð. Við erum þakklátir Dalvíkingum fyrir móttökurnar og erum klárir í að taka á móti þeim leggi þeir land undir fót og komi í uppsveitir Árnessýslu.

Svo var haldið suður í gegnum Skagafjörðinn að sjálfsögðu. Okkur er orðið hlýtt til Skagfirðinga eftir að þeir hafa tekið svona vel á móti okkur í tvígang. Minnugir síðustu ferðar okkar um slóðir Örlygstaðabardaga og Flugumýrarbrennu vorum við algjörlega meðvitaðir um hversu lítið þyrfti til að þar færi allt í bál og brand og þeir gripu til vopna. Sýndum við því stillingu bæði í orði og verki og vöruðumst allar snöggar hreyfingar. Þessi tilfinning okkar fékkst endanlega staðfest þegar við fórum að Haugsnesi og fengum fyrirlestur um Sturlungu og enn einn bardagann, Haugsnesbardaga, sem mun hafa verið sá mannskæðasti í Íslandssögunni. Þar tókust á fylkingar Þórðar Kakala og Ásbirningar með Brand Kolbeinsson í broddi fylkingar. Í Haugsnesi hefur Sigurður Hansen breytt minnkaskálum í Sturlungasetur og uppfræðir gesti og gangandi um Sturlungaöldina í Skagafirði. Hann hefur einnig sviðsett fylkingarnar með grjóthnullungum rétt í þann mund sem þeim laust saman, á melnum neðan við Sturlungasetrið. Jói í Stapa orti þessa vísu þegar hann sá fylkingarnar í formi grjóthnullunga;

Hér má forna fylking sjá
fyrr þá háð var glíma
steinrunna ég stari á
stríðsmenn fyrri tíma.

Ferðin suður leið fljótt. Menn fóru hver á fætur öðrum í hljóðnemann í rútunni og sögðu brandara og skemmtisögur og bóndinn á Urriðafossi upplýsti loks hve mikið hann græddi á laxinum í Urriðafossi. Þær upplýsingar liggja nú fyrir á borði skattrannsóknarstjóra. Önnur verkefni þar hafa verið sett til hliðar.

Þorleifur Jóhannesson

Myndir úr ferðalaginu (Ljósm.: Gunnlaugur Magnúss.)