Árið er 1997, og ekki þótti mega dragast lengur að stofna karlakór í uppsveitum Árnessýslu. Boðað var til fundar um stofnunina 1. apríl. Á þriðja tug karla mætti og söngstjórinn Edit, alls óhrædd við dagsetninguna – og það var ekki aftur snúið. Æfingum var ekki sinnt með hangandi hendi því strax 30. apríl söng kórinn nokkur lög á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði. Síðan hefur ekkert lát verið á söng kórsins eða þátttöku karla í honum, árin hafa hlaðist upp og brátt verður kórinn tuttugu ára. Edit Molnár hefur verið stjórnandi hans frá upphafi og Miklós Dalmay píanóleikari og hafa bæði reynst kórnum mesti happafengur. Nú á afmælisári eru kórfélagar 57 talsins og koma úr flestum sveitum Árnessýslu að Selfossi meðtöldum. Kórinn ætlar í tilefni tvítugsafmælisins að halda þrenna tónleika á næstunni og fá til liðs við sig þrjá karlakóra enda mega herlegheitin ekki vera minni.
- Afmælistónleikar kórsins hinir fyrstu verða 1. apríl næstkomandi klukkan 16.00 í íþróttahúsi Hrunamanna á Flúðum. Karlakórinn Fóstbræður er boðinn velkominn til þátttöku í þeim tónleikum.
- Næstu tónleikar verða í Selfosskirkju 3. apríl klukkan 20.00 og þar ætlar Karlakór Selfoss að gera kórnum þann heiður að syngja með.
- Hinir síðustu verða í Víðistaðakirkju í Hafnarfirði 5. apríl klukkan 20.00. Heimamenn í karlakórnum Þröstum koma þar til liðs við afmæliskórinn.
Dagskrá Karlakórs Hreppamanna á tónleikunum samanstendur af úrvali laga frá tuttugu ára ferli hans. Er það von kórsins að sem flestir komi á tónleikana og samfagni með því að hlýða á tímamótasöng.