„Karlakvöld“ kórsins var haldið föstudaginn  6. nóvember  í boði 2. bassa og er óhætt að segja að það hafi tekist afburða vel. Um 240 karlar mættu fullir eftirvæntingar um mat og skemmtiatriði sem í vændum voru. Þeir fóru svo aftur heim að skemmtun lokinni ennþá fullir að vísu en með væntingar uppfylltar.


Í boði var hefðbundið saltað hrossaket og einnig svið og að sjálfsögðu viðeigandi meðlæti, grænar baunir og rófur, kartöflur og uppstúf. Öllu þessu var gerð góð skil og 
lætur nærri að meðaltali hafi verið borðaður tvöfaldur skammtur af kjöti á mann. Áður hafði fordrykkur og forréttur verið borin fram í veitingasal svo að ljóst má vera að flestir höfðu svelt sig þennan dag til að geta tekið á því um kvöldið.                                                                                                             Þegar kórinn hafði tekið nokkur lög í upphafi hófst hin eiginlega dagskrá. Karlarnir fengu sér á diskana og þá tók ræðumaður kvöldsins, Bjarni Harðarson bóksali, til máls. Bjarni er óborganlegur sögumaður og kann þá list öðrum fremur að halda athygli manna óskiptri. Tvinnaði hann saman margar sögur  án þess að tapa þræðinum . Var mikið hlegið og menn margs vísari um hvernig hlutirnir ganga fyrir sig á Vestfjörðum.  Þegar menn höfðu fengið nægju sína af mat í bili var sýnd stuttmynd um inntökureglur  Karlakórsins. Gerum við ráð fyrir að margir muni sækja um inngöngu eftir að ljóst er hvers krafist er í hæfniprófinu. Menn voru svo hvattir til að fá sér ábót á matinn og margir þurftu að fá sér drykk eftir saltkjötið sem stóð algerlega undir nafni því bjórbirgðirnar kláruðust að lokum sem ekki hefur áður gerst á þessum samkomum. Milli atriða sögðu þeir Hjalti og Aðalsteinn, sem sáu um veislustjórn, sögur og brandara. Einnig var happdrætti með veglegum vinningum,  3. vinningur var árskort í Hrunalaug, 2. vinningur var messa í Tungufellskirkju sem óvart presturinn sjálfur  sr. Óskar fékk en því tókst að bjarga fyrir horn með því að sr. Halldór Reynisson meðlimur 2. bassa mun taka að sér að messa yfir prestinum þegar þar að kemur. Veglegasti vinningurinn var að samt 1. vinningur og er til marks um örlæti 2. bassa, en hann var tenór að eigin vali úr kórnum. Var samt mælst til þess að hann kæmi úr 1. tenór því við eigum svo fá eintök í 2. tenór. Milli atriða sjórnaði félagi í orlofi Simmi frá Grund fjöldasöng og tókst sérlega vel upp því hraustlega var tekið á í söngnum.

Þá var komið að seinni stuttmynd kórsins sem bar hinn frumlega titli „Hross ofan í oss“ og fjallaði um það þegar 2. bassi aflaði aðfanga til veislu karlakvöldsins. Að einhverjum ástæðum var mikið hlegið að þessari  grafalvarlegu heimildamynd sem til stendur að senda á heimildamyndahátið í Cannes í Frakklandi að ári og svo síðar jafnvel á Feneyjatvíæringinn.  Hápunktur  kvöldsins var svo uppsetning 2. bassa á ballettinum „Kópsvatnið“.  Mörgum  fannst efnistökin svipa til “Svanavatnsins“ sem er algjör fyrra, nema ef væri til að bera saman þokka og lipurð dansaranna. Er skemmst frá því að segja að menn urðu agndofa yfir túlkun og tilþrifum dansaranna  á sviðinu og má ljóst vera að margir þessara pilta í 2. bassa hafa lengi alið með sér draum um að verða balletdansarar og líklega dansa þeir mikið í laumi. Er nokkuð víst að ballett verður fastur punktur á karlakvöldum  annars bassa í framtíðinni og jafnvel undirfatasýningar.

ÞJ