Fátt er betra sálinni en að syngja. Það geta allir vitnað um sem hafa tekið þátt í kórsöng eða eins og skáldið sagði: „Saungurinn er hin öruggasta leið til að lyfta mannsandanum frá hrjúfum hversdagsleik.“ Það er ekki aðeins kórsöngurinn sem lyftir andanum heldur og ekki síður félagsskapurinn sem fylgir í kaupbæti.
Karlakór Hreppamanna er nú að hefja vetrarstarfið og að vanda verður það viðburðaríkt og spennandi. Meginþema söngsins í vetur verður: náttúra – maður – hestur, skreytt stemningu ljósmynda úr safni Sigurðar Sigmundssonar ljósmyndara frá Syðra- Langholti. Að vori leggur kórinn svo í ferð með vortónleika sína sem byggjast á þessu meginefni.
Enginn félagsskapur býr svo vel að ekki sé pláss fyrir nýja, glaða og efnilega félaga. 7. október næstkomandi kl. 20.30 býður kórinn nýja félaga velkomna á kóræfingu til þess að kynnast köllunum og hlusta á samhljóminn í rödduðum söng, hrífast með og slást í hópinn. Kallarnir í kórnum eru vissir um að þú átt erindi í félagsskapinn með þeim og leggir þannig þitt af mörkum til að gera góðan kór betri og auðga enn menningarlíf landsmanna.
Frá stofnun hefur kórinn búið svo vel að hafa Edit Molnár að kórstjóra og Miklos Dalmay píanóleikara, metnaðarfulla listamenn sem láta sér ekkert fyrir brjósti brenna. Kórfélagar koma úr öllum hreppum í uppsveitum Árnessýslu, úr Flóanum og frá Selfossi. Æft er í Félagsheimili Hrunamanna á Flúðum á þriðjudagskvöldum klukkan 20.30.
Síðastliðinn vetur æfði kórinn sjómannalög, íslensk og útlend, með ívafi af sögum um sjómennsku sem sérstakur sögumaður fór með og setti það skemmtilegan svip á tónleikana. Vortónleikar voru þá haldnir á Flúðum, Stokkseyri, í Grindavík og um sjómannadagshelgina í Vestmannaeyjum. Botninn verður sleginn í þessa dagskrá með tónleikum og einsöngvara í lok október. Um miðjan nóvember verður kóramót fimm sunnlenskra kóra á Hvolsvelli og þá skelfur Hvoll.
Karlakvöld kórsins eru víðfrægar skemmtanir þar sem veislustjórar fara á kostum í troðfullum sal í Félagsheimilinu – af glöðum köllum etandi ljúffengt hrossaket með mjúkum veigum sem má ekki nefna á nafn hér enda er sjón þar sögu ríkari.
Auk annarra viðburða á dagatali kórsins hafa verið þrettándagleði með dansleik á Flúðum, auk vorfagnaðar sem kemur í kjölfar vortónleikanna. Þar á dagskránni er kórsöngur af léttara taginu og dansleikur, og þaðan fara menn svo glaðbeittir út í vorið. Og ekki má gleyma júníviðburðinum sem er fastur liður. Þá fara kórfélagar í reiðtúr á milli bæja í Hrunamannahreppi og gleðja heimamenn með nærveru sinni. Í þessum túrum bregðast ekki ýmsar einkennilegar tilviljanir sem menn hafa mikla skemmtan af. Gildir bændur leggja til fákana.
Kórinn hvetur söngáhugamenn til að koma á opnu æfinguna 7. október í Félagsheimili Hrunamanna á Flúðum.
Stjórn KKH