Kórfélagar voru greinileg ekki að baki dottnir eftir Karlakvöldið því þann 9. des. var haldið upp að Geysi í jólahlaðborð. Þátttaka kórfélaga og maka var góð því þar voru tæplega áttatíu manns á vegum kórsins. Má segja að allir hafi mætt sem höfðu löglega afsökun nema kannski Grétar Skúlason sem tók jólahlaðborð hjá Flúðasveppum fram yfir okkar og eru hans mál nú í skoðun hjá stjórn kórsins, svona heildstætt og verður að segja að vonir hans um að hreppa stöðu nótnavarðar hafa minnkað til muna.

Á Geysi voru þvílíkar kræsingar á borðum að undrun sætti má jafnvel líkja þeim við það sem var í boði á Karlakvöldinu. Þrátt fyrir góðan vilja kórfélaga og maka að klára allt sem borið var fram tókst það ekki að þessu sinni en það má vera að önnur atlaga verði gerð að þessum krásum síðar.

Labbi í Glóru sá svo um að hjálpa gestum við brennsluna eftir átið allt og eru allar líkur á að margir hafi náð af sér aukakílóum eftir þær æfingar og jafnvel komið léttari heim en þegar af stað var farið.

Síðasta æfing fyrir jól var svo haldin þann 13. des. og þar söng kórinn nokkur létt jólalög fyrir kvenfélagskonur sem voru þar með sinn árlega jóla(glöggs)fund. Á þessari æfingu voru þeim Edit og Gylfa Þorkelssyni færðar ostakörfur sem þakklætisvott fyrir þeirra framlag á Liszt-tónleikunum og allir mættir félagar sem voru á æfingunni fengu Liszt-tónleikadisk í jólagjöf frá kórnum.

Karlakór Hreppamanna vill óska öllum velunnurum kórsins nær og fjær gleðilegra jóla og góðs nýs árs.

origin-christmas-candle-150x150