Reiðtúrinn 2010

Þeir fóru á mis við frábæra skemmtun í fallegu veðri sem komust ekki í reiðtúr karlakórsins þann 17. september s.l. Hópurinn sem lagði af stað í sól og blíðu frá Syðra-Langholti var eitthvað á fjórða tuginn en svo bættust nokkrir við á leiðinni. Leiðin sem var farin að þessu sinni lá yfir Stóru-Laxá, sem varla stóð undir nafni því svo vatnslítil var hún, á vaði hjá Ósabakka og þaðan var svo riðið eftir bökkunum austur að Gunnbjarnarholti. Þar tóku á móti ferðahópnum af alkunnum höfðingsskap hjónin Berglind og Arnar Bjarni. Arnar Bjarni er kórfélagi í orlofi því það er með karlakórinn eins og segir í kvæðinu góða „Hotel California“; „you can check out any time you like, but you can never leave“. Þeim hjónum þótti viðeigandi að taka á móti hópnum í stórgripaskýli nokkru sem þau eru að byggja. Buðu þau þar uppá veitingar sem voru bæði ljúffengar og seðjandi. Voru þar tekin nokkur lög þegar söngvatnið var farið að virka. Formaður skemmtinefndar var svo ánægður með mótttökurnar að hann fylgir því nú fast eftir að Berglind verði gerð að heiðursfélaga eða fái stöðu í fyrsta tenór.

Frá Gunnbjarnarholti var farið aftur yfir Stóru-Laxá og riðið í átt að Birtingaholti. Fyrir einkennilega tilviljun rákust menn þar, á miðju túni, á stóran pott fullan af bragðgóðum svaladrykk sem kom sér vel fyrir þyrsta ferðalanga sem drukku mjöð þennan af mikilli áfergju. Síðar áttuðu menn sig þó á því að þar var kominn sami drykkurinn sem Siggi Á. og félagar buðu uppá í reiðtúrnum í fyrra, svokölluð Prestsbolla og sumir fóru flatt á þá. Það sem villti mönnum sýn í fyrstu var að í þetta sinn var töluvert af byggi saman við blönduna. Það dugði því drykkurinn kláraðist og eftir það tvístraðist hópurinn um öll tún og það var líkt og menn sæju Syðra-Langholt allsstaðar, en þangað var hópnum stefnt í fiskisúpu. Allflestir skiluðu sér þó að lokum í súpuna. Heiðurinn af súpugerðinni átti Jón kokkur sem er vinur Simma. Jón þessi hefur verið kokkur í áratugi til sjós og státar af því að hafa aldrei misst mann. Eftir þetta kvöld gat hann enn státað af því. Þeir sem voru við dauðans dyr voru þar af öðrum ástæðum.

Formaður skemmtinefndar, Skúli og hans dyggi aðstoðarmaður, Agnar tóku nú til við verðlaunaafhendingar. Hafði áður verið tilkynnt að keppt yrði í sömu keppnisflokkum og áður þ.e. „frumkvæði í söng“, „fegurð í reið“ og„umhyggjusamasta eiginkonan“. Einhverjir töldu að Skúli væri enn sár yfir að hafa ekki fengið verðlaunin í fyrra því að hann neitaði að verðlauna neinn í ár með þeim orðum að enginn væri þeirra verður í ár. Í flokknum „fegurð í reið“ vann nýliði í kórnum, Sigurður nokkur Sigurjónsson, til verðlauna. Þótti hann bera sig afar vel á hestbaki, svo vel að við hinir vorum eins og heypokar í samanburðinum. Var gerður góður rómur af þessu og getur farið svo að Sigurður taki kórinn í kennslustund í þýskri ásetu fyrir næsta túr. Skúli var ákveðinn í að fella ekki niður keppnisflokkinn „umhyggjusamasta eiginkonan“ þrátt fyrir mótmæli Feminista í Framsóknarflokknum, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og Félags rauðhærðra Framsóknarkvenna. Það var ljóst að konurnar komu mjög einbeittar til leiks og samkeppnin þeirra í milli yrði mjög hörð. Heyrðust mjög gjarnan setningar eins og „Vantar þig nokkuð bjór, elskan?“ , „Á ég ekki að leggja á fyrir þig, ljúfurinn?“ og „Viltu ekki vindil núna dúllan mín?“. Ein setning vó þó greinilega þyngst því hún gerði útslagið og var svona „Langar þig ekki í Laufskálaréttir, rjómabollan mín?“ Það var einginn vafi í augum dómnefndarmanna. Aðalsteinn Þorgeirson, sjálfur formaður kórsins, státaði af umhyggjusömustu eiginkonunni þegar upp var staðið. Hann tók á móti verðlaununum sigri hrósandi en jafnframt svo klökkur að hann átti bágt með að tjá sig. Þegar þessi orð eru rituð er Aðalsteinn staddur uppá réttarvegg í Laufskálarétt að monta sig af eiginkonunni.

Þorleifur Jóhannesson 2. bassi

Myndir úr reiðtúrnum.